Um göngur og réttir
Með þessari grein vill Matvælastofnun vekja athygli á ýmsum mikilvægum atriðum er snerta smalanir, göngur og réttir. Sem betur fer eru þessir hlutir víða í góðu lagi en síðastliðin haust hefur sums staðar orðið vart við vankanta, t.d.:
- Fyrir kemur að heimalönd eru ekki smöluð fyrir réttir og að girðingar séu í ólagi þannig að skepnum stafar hætta af. Það er á ábyrgð sveitarfélaga að skyldum hvað þetta varðar sé sinnt.
- Göngur eru skipulagðar þannig að samliggjandi svæði eru smöluð sitt hvorn daginn, sem eykur líkurnar á því að sauðfé verði eftir á afréttum.
- Sauðfé og hross hafa verið vatnslaus í réttum og geymsluhólfum. Tryggja þarf að hægt sé að brynna hrossum og sauðfé í réttum.
- Leggja skal áherslu á að keyra sauðfé heim eins fljótt og auðið er eftir réttir. Það er ekki ásættanlegt að fé standi í réttum dögum saman.
Matvælastofnun vill hvetja landbúnaðarnefndir og/eða sveitarstjórnarfulltrúa til að huga að því hvernig verður staðið að sundurdrætti í réttum komandi hausts. Sóttvarnayfirvöld hafa þegar gefið gaum að smitvörnum fólks og sett takmörk á aðgang óviðkomandi að réttum. Þannig munu réttir varla verða miklir mannfögnuðir í haust, þótt hefð sé fyrir slíku, og er fólk beðið um að virða það.
Færst hefur í vöxt að sveitarfélög setji upp rekstrarganga, ýmist varanlega eða tímabundna, til að auðvelda sundurdrátt í réttum og auka dýravelferð. Stofnunin mælir með notkun ganga af þessu tagi og telur þá hafa marga kosti. Með notkun þeirra verður sundurdráttur fljótlegri, sauðféð er rólegra og það er farið betur með það, því ekki þarf að taka á neinni kind. Einnig auka þeir gæði afurða því alltaf er eitthvað um að marblettir sjáist á skrokkum sauðfjár sem kemur til slátrunar stuttu eftir réttir. Þeir stafa oftast af því að gripið var í ull kindanna í því ati sem fylgir sundurdrætti með gamla laginu.
Hvað varðar smitvarnir búfjár má að sjálfsögðu ekki slaka neitt á klónni með þær, enn erum við að glíma við illvíga sjúkdóma, s.s. riðu og garnaveiki, og sem fyrr er mikilvægt að gæta þar fyllstu varúðar. Tilkynna skal um kindur sem drepast í göngum eða finnast dauðar á afrétt. Eftirfarandi reglugerðargrein (6. gr. rg. nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, sem byggir á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim) segir flest sem segja þarf í þessum efnum:
Leitast skal við að samræma lögboðnar smalanir innan sveitar og milli sveita. Við allar lögréttir og skilaréttir (aukaréttir) skal vera tiltæk aðstaða til að einangra sjúkt eða grunað sauðfé. Línubrjóta og annað fé, sem vekur grunsemdir í göngum, rekstrum og fjársafni, skal einangra án tafar og senda beint í sláturhús eða lóga á staðnum, ef ekki er annars kostur. Héraðsdýralæknir getur ákveðið, að fengnu samþykki yfirdýralæknis og eftir tillögum sveitarstjórnar, að slátra skuli fé sem kemur fyrir að hausti fjarri eiginlegum sumarhögum og öðru fé, sem smithætta kann að stafa af. Skylt er að taka hausa til rannsóknar og önnur sýni samkvæmt fengnum leiðbeiningum héraðsdýralæknis.
Hér að neðan eru nokkrar greinar úr lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. (nr. 6/1986):
- V. kafli. Um göngur og réttir.
47. gr.
Í fjallskilasamþykkt skulu vera ákvæði, er tryggja eins vel og verða má, að göngur fari fram samtímis í löndum, er saman liggja og ekki eru aðgreind frá öðrum með girðingum, vötnum eða fjallgörðum.
Nú verður ágangur fjár frá einu sveitarfélagi í annað eða frá einu fjallskilaumdæmi í annað, og getur þá sá, er fyrir verulegum ágangi verður, krafið hinn aðilann um gjald fyrir, eða að hann sendi menn í göngur, eftir því sem hæfilegt þykir miðað við gangnakostnað og usla í högum. Rétt er, að um þetta séu nánari ákvæði í fjallskilasamþykkt.
48. gr.
[Í fjallskilasamþykkt skal ákveða] 1) hvar aðalréttir og aukaréttir skuli vera í fjallskilaumdæmi, að fengnum tillögum sveitarstjórna. Þar skal og tiltekið á sama hátt, hvaða leitarsvæði skuli gengin til hverrar réttar og hvaða daga göngur skuli gerðar á hverjum stað. Gangnadögum má þó breyta fyrir eitt haust í senn með samþykki [stjórnar fjallskilaumdæmis], 1) enda sé þess gætt, ef göngum er flýtt eða frestað, að breytingin nái til þeirra leitarsvæða, er saman liggja.
1)L. 138/2011, 134. gr. - VI. kafli. Um hreinsun heimalanda eftir réttir.
52. gr.
Hreppsnefnd skal sjá um, að eftir réttir á haustum séu öll heimalönd rækilega smöluð samtímis, svo oft sem þurfa þykir, og að afbæjarfé komist til réttra eigenda.
53. gr.
Skyldur er hver bóndi eða landráðandi að hirða fé það, sem finnst í heimalandi hans, eftir að fjallgöngum er lokið. Í fjallskilasamþykkt skal kveðið nánar á um skil afbæjarfjár. - VII. kafli. Um eftirleitir og öræfaleitir o.fl.
54. gr.
Eftirleitir skal gera á afrétt, ef líklegt er, að þar leynist fé. Skal í fjallskilasamþykkt kveða nánar á um eftirleitir.