Títan díoxíð ekki lengur talið öruggt aukefni
Títan díoxíð (E171) er ekki lengur talið öruggt aukefni í matvælum. Þetta er niðurstaða endurmats Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) á öryggi aukefnisins. Ekki hefur verið sýnt fram á skaðsemi efnisins með óyggjandi hætti en ekki er hægt að útiloka skaðleg áhrif á erfðaefni út frá nýjum rannsóknum, að mati EFSA.
Títan díoxíð er leyfilegt aukefni sem notað er sem litarefni í ýmis matvæli til að gefa þeim hvítan lit.
Eituráhrif á erfðaefni er eiginleiki efna til að skaða erfðaefni fruma (DNA) og auka þannig líkur á krabbameini. Því er nauðsynlegt að meta möguleika efna til að hafa slík áhrif til að leggja mat á öryggi þeirra. Einungis lítill hluti efnisins er tekinn upp í meltingarvegi en möguleiki er á að það geti safnast upp í líkamanum.
Aukefni eru reglulega tekin til endurskoðunar m.t.t. nýrra vísindalegra gagna. Síðast gerði EFSA áhættumat á títan díoxíð árið 2016. Niðurstaða þess mats var að frekari gagna væri þörf. Síðan 2016 hafa komið fram þúsundir rannsókna sem endurmat EFSA byggir á.
Í kjölfar áhættumatsins má búast við að efnið falli út af lista yfir leyfileg aukefni í Evrópusambandinu. Löggjöf Evrópusambandsins um aukefni gildir einnig á Íslandi og í Noregi.