Stuðningsgreiðslur við dýralæknaþjónustu í Dölum og Ströndum - Samningur laus til umsóknar
Matvælastofnun auglýsir eftir sjálfstætt starfandi dýralækni til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í Dölum og á Ströndum. Markmiðið er að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landssvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna af skornum skammti, sbr. 13. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
Starfið felur í sér að gegna dýralæknisþjónustu í Dölum og á Ströndum og að taka að sér tiltekin störf fyrir Matvælastofnun. Gerðir verða tveir samningar, annars vegar þjónustusamningur og hins vegar verkkaupasamningur, hvoru tveggja eru verktakasamningar við Matvælastofnun. Almennri dýralæknaþjónustu tilheyrir einnig að standa vaktir kvöld, nætur og helgidaga, en að tilteknu hámarki.
Þjónustusamningur er gerður til fimm ára, gildir frá 1. mars 2023 til og með 28. febrúar 2028 en getur þó tekið fyrr gildi náist um það samkomulag. Staðaruppbót sem greidd er samkvæmt þjónustusamningi er í formi mánaðarlegrar þóknunar. Hægt er að sækja um fullar staðaruppbætur eða að hluta, með tilheyrandi skerðingu á skyldum. Þóknun fyrir opinber eftirlitsverkefni unnin samkvæmt verkkaupasamningi við Matvælastofnun er tímagjald.
Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skal vera með eða hafa aðgang að starfsstöð innan þjónustusvæðisins til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái þjónustu innan hæfilegs tíma. Því er kostur að viðkomandi sé búsettur innan svæðisins Kostur er að umsækjandi hafi góða þekkingu á staðháttum og sjúkdómastöðu á viðkomandi svæði. Gerð er krafa um góða íslenskukunnáttu.
Um eftirfarandi þjónustusvæði er að ræða:
Þjónustusvæði 2: Dalabyggð, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Bæjarhreppur.
Nánari upplýsingar um dýralæknaþjónustuna veitir skrifstofa yfirdýralæknis mast@mast.is og í síma 530 4800. Jafnframt er hægt að óska eftir því að fá drög að þjónustusamningi og verkkaupasamningi sendan til kynningar.
Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið starf@mast.is merktar “Dýralæknir – þjónustusvæði 2”. Umsóknarfrestur er til og með 11. desember 2022. Umsókn skal fylgja starfsferilskrá og afrit af prófskírteinum, ef við á, ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar, hvernig samstarfi umsækjandi hyggst koma á við aðra dýralækna og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.