Fara í efni

Staða á gin- og klaufaveiki í Slóvakíu og Ungverjalandi

Gin- og klaufaveiki hefur nú greinst á samtals fimm bæjum í Slóvakíu og fjórum bæjum í Ungverjalandi. Mjög umfangsmiklar aðgerðir eru í gangi í þessum löndum til að stemma stigu við útbreiðslu veikinnar. Veiran sem veikinni veldur er mjög harðger og getur auðveldlega borist með afurðum sýktra dýra sem og fólki og ýmsum tækjum og varningi sem hefur verið í snertingu eða nálægð við sýkt dýr.

Almenn regla er að hafi fólk verið í snertingu við búfé erlendis, ætti það ekki að fara inn á bú hér á landi fyrr en a.m.k. tveimur sólarhringum síðar, og aðeins eftir að hafa farið í sturtu og haft fataskipti. Þetta á við jafnvel þótt dýrin hafi verið án sjúkdómseinkenna. Alvarlegir smitsjúkdómar svo sem gin- og klaufaveiki geta leynst og dýrin verið einkennalaus um nokkurt skeið eftir að hafa sýkst. Fólk sem hefur verið á svæðum í heiminum þar sem vitað er að gin- og klaufaveiki eða aðrir alvarlegir búfjársjúkdómar eru til staðar ættu að forðast að vera í snertingu við búfé hér á landi í lengri tíma eftir heimkomu, helst sjö daga.

Upplýsingar um útbreiðslu gin- klaufaveiki og aðgerðir til upprætingar veikinnar eru stöðugt uppfærðar á vefsíðu Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Þar má m.a. finna kort sem sýnir staðsetningu þeirra búa sem veikin hefur greinst á og þau varnarsvæði sem hafa verið skilgreind umhverfis búin. Til viðbótar við hin hefðbundnu þriggja kílómetra varnarsvæði og tíu kílómetra eftirlitssvæði umhverfis hvert bú, hefur Evrópusambandið skilgreint stórt svæði í Slóvakíu, Ungverjalandi og Austurríki þar sem tilteknar takmarkanir gilda m.a. varðandi flutninga á lifandi klaufdýrum. Svæðið má sjá á kortinu hér fyrir neðan í mismunandi bláum litum eftir því í hvaða landi svæðið er.

Samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins er skylt að aflífa öll klaufdýr á búum þar sem gin- og klaufaveiki greinist og á búum sem hafa faraldsfræðilega tengingu við þau. Jafnframt eru fyrirskipaðar strangar flutningstakmarkanir á skilgreindum svæðum umhverfis búin. Eftirliti, sýnatökum og faraldsfræðilegri rannsókn er komið á fót, og í sumum tilfellum eru öll móttækileg dýr á tilteknu svæði bólusett til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Innan Evrópusambandsins er lögð áhersla á gagnsæi og nákvæma upplýsingamiðlun milli landa. Á fyrrgreindri vefsíðu má t.d. sjá glærur frá kynningum landanna á stöðu mála og aðgerðum sem gripið hefur verið til.

Matvælastofnun ítrekar fyrri áminningu sína til fólks sem ferðast til landa þar sem gin- og klaufaveiki er til staðar að gæta ávallt hreinlætis í umgengni við dýr og þrífa skófatnað og þvo föt sem hafa verið í snertingu við dýr, áður en komið er heim. Sérstaklega á þetta við fólk sem á sjálft dýr eða starfar í tengslum við dýr. Jafnframt er gífurlega mikilvægt að gæta þess að klaufdýr komist ekki í óhitameðhöndluð matvæli.

Almennar upplýsingar um gin- og klaufaveiki, m.a. sjúkdómseinkenni, viðbrögð og varnir, má lesa um í Handbók um viðbrögð við gin- og klaufaveiki sem er ásamt fleira efni á síðu Matvælastofnunar um viðbrögð við dýrasjúkdómum.


Getum við bætt efni síðunnar?