Neysla orkudrykkja í Evrópu
Umræða um mögulegar skaðlegar afleiðingar af neyslu orkudrykkja og innihalds þeirra, sérstaklega hjá börnum og unglingum, hefur verið lengi í gangi í Evrópu. Í ljósi þess að orkudrykkjamarkaður hefur vaxið ört undanfarin ár hafa mörg lönd lýst áhyggjum sínum yfir því að lítið er vitað um neyslumynstur þessara hópa.
Til að geta lagt mat á áhættuna sem hugsanlega stafar á neyslu orkudrykkja, t.d. vegna neyslu þeirra með áfengi, hefur Matvælaöryggisstofnun Evrópu, EFSA, látið framkvæma rannsókn á neyslu orkudrykkja í Evrópu. Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að safna upplýsingum um neyslu orkudrykkja meðal mismunandi hópa neytenda þar sem áhersla var lögð á að kanna neyslu á virkum efnum svo sem koffíni, táríni og D-glúkúrónó-γ-laktóni sem gjarnan er bætt í orkudrykki. Þá var markmið rannsóknarinnar jafnframt að athuga við hvaða aðstæður orkudrykkja er neytt, þ.e. í partíum, skólum eða í tengslum við íþróttaiðkun og hvort orkudrykkjum var gjarnan blandað saman við áfengi.
Rannsóknin beindist einkum að neyslu 3-10 ára barna og 10-18 ára ungmenna en jafnframt var fylgst með neyslu fullorðinna (18-65 ára). Lagt var mat á inntöku neytenda á virkum efnum í orkudrykkjum, til lengri og skemmri tíma. Ekki er til samræmd skilgreining á orkudrykkjum þannig að rannsóknin náði til allra þeirra drykkja sem innihalda ofangreind örvandi efni og þar sem markaðssetning byggir á því að draga fram lífeðlisfræðileg áhrif þeirra.
Rannsóknin var framkvæmd á tímabilinu febrúar til nóvember 2012 og samtals tóku 52.000 manns þátt. Niðurstöður hennar sýndu að ungmenni (10-18 ára) voru sá aldurshópur sem líklegastur var til að neyta orkudrykkja. Um 68% sögðust hafa drukkið orkudrykk a.m.k. einu sinni síðasta ári. Aðeins um 30% fullorðinna og 18% barna reyndust hafa neytt orkudrykkja á tímabilinu. Þá sýndu niðurstöðurnar að hlutfall koffíns úr orkudrykkjum hjá börnum á aldrinum 6 – 10 ára sem hluti af heildar koffínneyslu er afar hátt eða 43% en aðeins 13% hjá ungmennum.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru:
Fullorðnir (18-65 ára):
Um 30% fullorðinna neyta orkudrykkja en hlutafall þeirra yngri innan þessa hóps (18-29 ára) er mun hærra, eða 53%. Af þeim (þ.e. hinum yngri) reyndust 13,3% neyta mikils magns yfir lengri tíma. Rannsóknin skilgreinir slíka neytendur sem „high chronic“, þ.e. ef neysla orkudrykkja er reglubundin 4-5 daga vikunnar eða oftar. Meðalneysla þeirra, þ.e. þessara „high chronic“-neytenda mældist um 4,5 lítrar á mánuði. Um 11% fullorðna neyttu gjarnan mikils magns orkudrykkja á stuttum tíma. Rannsóknin skilgreinir slíka neytendur sem „high acute“ ef þeir sögðust hafa neytt 1 lítra eða meira í einu eða „per single session“. Hlutfall þeirra yngri, þ.e. 18-29 ára er aðeins hærra eða 13,4 %.
Meðal fullorðinna er neysla orkudrykkja með áfengi mjög algeng en 56% reyndust gera það. Hlutfallið er enn hærra meðal þeirra sem yngri eru (18-29 ára) eða 71%. Þá er meira en helmingur fullorðinna, 52%, líklegur til að neyta orkudrykkja samhliða íþróttaiðkun.
Ungmenni (10-18 ára):
Um 68% þátttakenda í þessum aldurshópi neytti orkudrykkja en hlutfall 15-18 ára var 73%. Í þessum hópi reyndust 12% neyta mikils magns eða 4-5 daga vikunnar eða oftar (þ.e. „high chronic“-consumers). Meðalneysla þeirra var 7 lítra á mánuði. Sama hlutfall, eða 12% ungmenna, geta talist sem „high acute“-consumers. Þeir drukku rúmlega 1 lítra í einu eða „per single session“.
Rannsóknin sýndi að svipað hlutfall ungmenna og fullorðinna neytti orkudrykkja með áfengi (53% á móti 56%) en aðeins 41% ungmenna neyttu orkudrykkja samhliða íþróttaiðkun, sem er aðeins minna en hjá fullorðnum (52%).
Börn (6-10 ára):
Um 19% barna á aldrinum 6-10 ára sögðust hafa drukkið orkudrykk a.m.k. einu sinni á síðastliðnu ári. Um það bil 16% þessara barna mátti skilgreina sem „high chronic“-neytendur, þ.e. þau sögðust neyta orkudrykkja reglubundið, 4-5 daga vikunnar eða oftar. Meðalneysla þessara barna var nærri einum lítra á viku eða nær 4 lítrar á mánuði.
Athyglisvert er að hlutfall koffíns úr orkudrykkjum sem hlutfall af heildarneyslu koffíns hjá börnum á aldrinum 6 – 10 ára er afar hátt eða 43%. Meðalinntaka koffíns fyrir þennan hóp er um 21,97 mg á dag. Koffín inntaka þeirra sem skilgreindir voru sem „high chronic“-neytendur var að meðaltali 42,9 mg á dag.
Rannsóknin sýndi jafnframt að skortur er á gögnum og upplýsingum um orkudrykki og neyslu þeirra í Evrópu. Niðurstöður hennar benda þó til þess að neysla orkudrykkja á meðan ungfólks hafi aukist undanfarin 10 ár, bæði neyti það þessara drykkja að staðaldri og meira magns í einu. Þess má því vænta að EFSA gefi út áhættumat á koffíni og neyslu þess í tengslum við önnur efni (svo sem áfengi) og við vissar aðstæður (t.d. íþróttaiðkun) áður en langt um líður. Hugsanlegt er að niðurstöður rannsóknarinnar geti stutt að settar verði samræmdar reglur um þessi örvandi efni á vettvangi Evrópusambandsins.
Á Íslandi hafa ekki verið gerðar sambærilegar rannsóknir og því erfitt að staðfesta með vissu hvort orkudrykkjaneysla barna og ungmenna hafi aukist þannig að það ástæða sé til að grípa til sérstakra ráðstafana. Þó má lesa úr síðustu neyslukönnun á mataræði Íslendinga frá árinu 2010-2011 að neysla orkudrykkja hjá ungum fullorðnum (18-30 ára) sé meiri en hjá eldri hópum og því mjög svipuð og fram kemur í evrópsku rannsókninni, þ.e. yngri karlmenn eru líklegri til að neyta meira magns koffíns en aðrir.
Ítarefni
- Skýrsla EFSA: Gathering consumption data on specific consumer groups of energy drinks
- Fræðsluefni Matvælastofnunar til foreldra um neyslu og áhrif koffíns
- Upplýsingar um koffín á vef Matvælastofnunar
- Upplýsingar um orkudrykki á vef Matvælastofnunar
- Grein um koffín í Morgunblaðinu
- Bæklingur Matvælastofnunar um koffín
- Mælingar á koffíni í drykkjum á íslenskum markaði
- Koffín neysla á Íslandi 2002 (á ensku)
- Áhættumat á koffínneyslu meðal barna og unglinga á Norðurlöndum (á ensku)
- Lög og reglur - Bragðefni