Fara í efni

Mögulegt eldgos í eða við Grindavík

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur ákveðið að færa almannavarnastig af óvissustigi upp á hættustig vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi, sjá nánar https://www.almannavarnir.is/frettir/haettustig-almannavarna-vegna-kvikusofnunar-undir-svartsengi/. Ekki er talið ólíklegt að eldgos eða kvikuhlaup verði á næstu vikum.

Veðurstofa Íslands birtir góða greinargerð um stöðuna á vefsíðu sinni (https://www.vedur.is/um-vi/frettir/jardhraeringar-grindavik) og fjallar um tvær meginsviðsmyndir, en útilokar ekki þann möguleika að gossprunga opnist innan Grindavíkur. Ennfremur er bent á að hraunflæðilíkön sýni að ef gýs við Hagafell gæti hraunflæði lokað flóttaleiðum á landi út úr bænum á nokkrum klukkustundum.

Matvælastofnun hvetur dýraeigendur, einkum eigendur landdýra sem kunna að vera í eða við Grindavík, til að koma þeim á öruggan stað sem fyrst vegna möguleika á gosi og hraunrennslis á svæðinu. Almannavarnir hafa gefið út að fyrirvari goss sé bæði styttri og ógreinanlegri. Komi til eldsumbrota er líklegt að tími til að fanga og flytja dýr verði of stuttur.


Getum við bætt efni síðunnar?