Fara í efni

Fuglainflúensa staðfest í villtum fuglum á Norður- og Suðausturlandi

Skæð fuglaflensuveira af gerðinni H5N5 hefur verið staðfest í villtum fuglum. Óvissustig er í gildi. Allir sem halda alifugla eða aðra fugla eru því hvattir til að viðhafa ýtrustu smitvarnir við umgengi á fuglunum sínum.

Tilraunastöð HÍ í meinafræði staðfesti í gær, þann 8.10.2024, að meinvirkar fuglainflúensuveirur af gerðinni H5N5 hafa greinst í hrafni í Öræfum og í hettumáfum á Húsavík. Þetta er fyrsta greining á skæðum fuglainflúensuveirum á þessu ári. Haustið 2023 greindust einnig skæðar fuglainflúensuveirur af gerðinni H5N5 í hröfnum og öðrum villtum fuglum. Það stendur til að heilraðgreina nýjustu veirurnar en það getur gefið vísbendingu um uppruna þeirra.

Fleiri sýni hafa verið tekin úr grunsamlegum villtum fuglum og er beðið niðurstaðna rannsókna.

Matvælastofnun metur miðlungs líkur á því að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla og aðra fugla í haldi, samkvæmt mati áhættumatshóps um fuglainflúensu og er því óvissustig virkjað.

Fuglaeigendur skulu því:

  • forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla,
  • gæta þess að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum,
  • halda fuglahúsum vel við,
  • tilkynna til Matvælastofnunar um aukin og grunsamleg veikindi og dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi, og
  • eigendur alifuglabúa með 250 fugla eða fleiri eiga auk þess ávallt að uppfylla skilyrði um smitvarnir, sem tilgreind eru í reglugerð 88/2022 um velferð alifugla.

Ítrekað er almenningi ráðlagt til að koma ekki nálægt eða handleika villtan fugl sem virðist ekki geta bjargað sér nema að viðhafðar séu góðar sóttvarnir svo sem að nota einnota hanska og veiruhelda grímu. Það á líka við um fugla sem er einungis með væg einkenni eða virkar jafnvel heilbrigður að öðru leyti.

Matvælastofnun ítrekar beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, en líka er hægt að hringja í síma 530 4800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is.

Æskilegt er að fá myndir og upplýsingar um fuglategund, fjölda fugla og fundarstað með hnitum.


Getum við bætt efni síðunnar?