ESB bannar nokkrar tegundir af úreltum erfðabreyttum nytjaplöntum
Þann 20. mars s.l. var tillaga framkvæmdastjórnar
Evrópusambandsins (ESB) um að banna eftirfarandi tegundir erfðabreyttra
nytjaplanta þ.e. Bt176 maís, GA21xMON810 maís, Ms1Rf1 olíu repju,
Ms1Rf2 olíu repju og Topas 19/2 olíu repju samþykkt í fastanefnd
sambandsins um fæðukeðjuna og heilbrigði dýra. Þessar fimm tegundir
voru heimilaðar í ESB áður en núgildandi reglur sambandsins um
erfðabreytt matvæli og fóður voru settar með reglugerð nr. 1829/2003.
Þessi reglugerð hefur ekki ennþá verið tekin upp í viðauka við EES
samninginn, en það verður eflaust gert á næstunni og þá mun hún ásamt
þeim breytingum sem gerðar hafa verið á henni einnig taka gildi hér á
landi. Allar erfðabreyttar plöntur sem voru löglega á markaðnum í
Evrópu þegar þessi reglugerð tók gildi máttu vera þar áfram til 18.
apríl í ár, en til að mega hafa þær áfram á markaðnum eftir þann tíma
þá þurfti að sækja sérstaklega um það til framkvæmdastjórnarinnar.
Engar umsóknir hafa borist um áframhaldandi heimild til
markaðssetningar þessara fimm tegunda, enda eru þær ekki lengur í
ræktun og fyrirtækin sem settu þær á markað hafa ekki lengur áhuga á
markaðssetningu þeirra. Auk þess eru ekki til neinar byrgðir af þessum
afurðum lengur. Það er þó ekki útilokað að á markaðnum séu afurðir sem
eru mengaðar og innihaldi því vott af þessum tegundum. Vegna þess að
ekki er hægt að losna við þessa mengun á svipstundu þá mega matvæli og
fóður innihalda 0,9% af þessum erfðabreyttu afurðum næstu fimm árin að
því tilskildu að um óhjákvæmilega mengun sé að ræða.
Birt á vef Aðfangaeftirlitsins þann 3. apríl 2007