Fara í efni

Engar greiningar á fuglainflúensu það sem af er árinu

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur nú rannsakað sýni úr villtum fuglum, sem hafa fundist víðsvegar um landið undanfarna mánuði, og hún staðfestir að ekki hafi greinst fuglainflúensuveirur í þeim.

Um er að ræða fjórtán sýni úr hræjum tíu tegunda villtra fugla, sem hafa fundist í apríl og maí á þessu ári. Meðal annars voru sýni rannsökuð úr lundum og stuttnefjum sem fundust dauðir í tugatali við Dalvík, en eins og áður segir þá voru öll sýni neikvæð. Ekki hefur því greinst fuglainflúensa hérlendis á þessu ári.

Hægt er að fylgjast með því sem tekið er af sýnum og niðurstöðum greininga í mælaborði Matvælastofnunar um vöktun á fuglainflúensu í villtum fuglum.

Þótt flestir farfuglar séu komnir til landsins og fuglainflúensa hafi ekki greinst, er of snemmt að álykta að alifuglum og öðrum fuglum í haldi stafi ekki hætta af smiti frá villtum fuglum. Því er óvissustig áfram í gildi. Enn sem komið er bendir þó ekkert til þess að veiran sé að valda afföllum í villtum fuglum.

Matvælastofnun ítrekar beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, en líka er hægt að hringja í síma 530 4800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Æskilegt er að fá myndir og upplýsingar um fuglategund, fjölda fugla og fundarstað með hnitum.

Ítarefni

Upplýsingasíða MAST um fuglainflúensu


Getum við bætt efni síðunnar?