Aðgerðir Matvælastofnunar í málefnum velferðar dýra
Eitt af kjarnaverkefnum Matvælastofnunar (MAST) er að gæta að dýravelferð og er því verkefni sinnt af heilindum og forgangi. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um velferð dýra á tilteknum bæ í Borgarfirði og um meint aðgerðaleysi MAST í því máli. MAST er ekki heimilt að tjá sig um tiltekin mál en lög um vinnslu persónupplýsinga og stjórnsýslulög takmarka heimildir MAST til upplýsingagjafar um einstök mál til einstaklinga og fjölmiðla. Því er ekki hægt að upplýsa aðila sem senda inn ábendingar til MAST um framgang mála hjá einstaklingum. Vegna óvæginnar orðræðu í garð starfsfólks stofnunarinnar sér stofnunin sig þó knúna að grípa til nokkurra andsvara og reyna að skýra verkferla sína frekar og fara almennt yfir þær raðir aðgerða sem gripið er til í málum er varða velferð dýra, þótt ekki séu þær ávallt sýnilegar almenningi.
Ferli og úrbætur
Stjórnsýslulög kveða á um að stjórnvald skuli beita vægasta úrræði hverju sinni til að ná fram úrbótum, og er stofnuninni skylt að fara eftir skýrum verkferlum í slíkum málum.Komi upp mál er varða velferð dýra fá umsjáraðilar þeirra fyrst tækifæri til að bregðast við ábendingum um nauðsynlegar úrbætur. Sé ekki brugðist við þeim ábendingum sem skyldi hefur MAST heimild til að beita þvingunum til að knýja fólk til úrbóta, má þar nefna dagsektir. Þessu fylgja vitaskuld fjölmargar eftirlitsheimsóknir á viðkomandi bæi og mikil og ítarleg afskipti af starfsemi viðeigandi aðila. MAST getur einnig refsað fyrir brot með því að sekta aðila, þ.e. lagt á stjórnvaldssektir.
Vörslusvipting dýra
Vörslusvipting er alvarleg aðgerð og eingöngu gripið til hennar að vel ígrunduðu máli og að fyrrnefndar leiðir stofnunarinnar séu fullreyndar. Eins og komið hefur fram í því máli sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu hefur hluta búfjár verið fært úr vörslu umráðamanns. Ekki er um fyrstu aðgerðir MAST að ræða í því máli.
Úttekt á störfum MAST
Ríkisendurskoðun hefur hafið úttekt á störfum MAST er lúta að eftirliti með velferð dýra. Stofnunin fagnar úttektinni og komi í ljós að eitthvað megi betur fara verður verklagi breytt. Fram að því mun stofnunin áfram vinna eftir skráðu og útgefnu verklagi við eftirlit, eftirfylgni, beitingu þvingana og refsinga.