Fara í efni

Brexit - útflutningur til Bretlands

Þann 31. desember 2020 lauk aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Í kjölfarið var Bretland skilgreint sem þriðja ríki gagnvart ESB/EES. Til stóð að bresk yfirvöld innleiddu landamæraeftirlit og kröfu um heilbrigðisvottorð með afurðum, í nokkrum þrepum frá og með 1. janúar 2022 en í lok apríl 2022 var þeim fyrirætlunum breytt, þ.e. kröfunni um heilbrigðisvottorð var frestað til ársloka 2023. Í lok ágúst 2023 var aftur tilkynnt um frestun á innleiðingu landamæraeftirlitsins, sem nú skal hefjast 31. janúar 2024. Eftir sem áður skulu innflytjendur í Bretlandi tilkynna innflutning í IPAFFS (sjá nánar að neðan).

Áætlað landamæraeftirlit frá 31. janúar 2024

Á árinu 2023 hófu bresk yfirvöld kynningu á drögum að því landamæraeftirliti sem taka á gildi í skrefum frá og með 31. janúar 2024. Hlekki að upplýsingasíðum breskra yfirvalda er að finna hér að neðan en helstu atriði hafa verið dregin út.

Border Target Operating Model - gefið út í ágúst 2023

Innleiðingaráætlun landamæraeftirlits er sem hér segir:

  • 31. janúar 2024: Vottorða verður krafist fyrir afurðir með miðlungs áhættu; þ.e. fyrir dýraafurðir, plöntur, plöntuafurðir og afurðir ekki úr dýraríkinu sem lúta sérstöku eftirliti. Þegar er í gildi vottunarkrafa vegna dýra og afurða sem fylgir mikil áhætta.
  • 30. apríl 2024: Innleiðing gagnaskoðunar og áhættumiðaðrar auðkenna- og vöruskoðunar á afurðum með miðlungs áhættu.
  • 31. október 2024: Single Trade Window gáttin verður tekin í notkun.

Áhættuflokkar innfluttra dýra og dýraafurða frá EES

Athugið að upptalningin í töflunni er ekki tæmandi og eingögnu ætluð til viðmiðunar. Sjá nánar um áhættuflokkun á heimasíðu breskra yfirvalda, þar má m.a. fletta upp áhættuflokkum eftir tollskrárnúmerum.

Import risk categories for animal and animal product imports from the EU to Great Britain: summary tables

Áhættuflokkur Afurðir Kröfur og nauðsynleg fylgigögn
Mikil áhætta Lifandi dýr og kímefni auka vara sem um gilda sérstakar varúðarráðstafanir

Innflytjandi í Bretlandi skal tilkynna sendingar í gegnum IPAFFS
Heilbrigðisvottorð skal fylgja.
Vörur gangast þegar undir skoðun við landamæraeftirlit

Miðlungs áhætta Hrátt, kælt eða frosið kjöt, kjötvörur, ákveðnar mjólkurvörur, ABP til nota í fóður, ákveðnar fiskafurðir (t.d. eldisfiskur og skelfiskur), lifandi lagardýr innflutt sem matvæli

Innflytjandi í Bretlandi skal tilkynna sendingar í gegnum IPAFFS
Heilbrigðisvottorð skal fylgja frá 31. janúar 2024
Vörur gangast undir skoðun við landamæraeftirlit frá 30. apríl 2024

Lítil áhætta

Unnar vörur sem eru stöðugar við stofuhita, samsettar eða tilteknar kjöt-, fisk- eða mjólkurvörur, unnar aukaafurðir (ABP) og villtur fiskur (að uppfylltum skilyrðum)*

Innflytjandi í Bretlandi skal tilkynna sendingar í gegnum IPAFFS
Viðskiptaskjöl

 

*Skilyrði sem villtur fiskur þarf að uppfylla til að falla undir minnsta áhættuflokkinn:

  • Fiskurinn skal koma frá og vera merktur samþykktri starfsstöð
  • Fiskurinn er ekki lifandi né lífvænlegur (væri honum skilað aftur út í umhverfið)
  • Fiskurinn hefur ekki farið í frekari vinnslu, t.d. hitun, herðingu, reykingu, þurrkun, marineringu o.s.frv. skv. skilgreiningu í 2. gr. reglugerðar ESB 852/2004
  • Sendingunni skulu fylgja t.d. veiðivottorð (IUU documents) og staðfesting á vinnslu/geymslu þar sem við á
  • Fiskurinn má ekki vera af tegundum sem fylgir áhætta af histamín myndun (s.s. makríll, síld, túnfiskur o.fl.).

Athygli er vakin á því að eftir að vottorðakrafa og aukið landamæraeftirlit tekur gildi í Bretlandi verður ekki hægt að flytja dýraafurðir til Bretlands sem ekki eiga uppruna í samþykktum starfsstöðvum. Á þetta t.d. við um fisk úr fiskiskipum sem skilgreind eru sem frumframleiðendur og hafa ekki samþykkisnúmer. Tíðkast hefur að landa afla beint úr slíkum skipum í gáma til útflutnings. Til þess að vera bær til útflutnings þurfa dýraafurðir að fara í gegnum samþykkta starfsstöð.

Heilbrigðisvottorð frá 31.01.24 - TRACES 

Vottorð sem fylgja afurðum til Bretlands skulu vera rafrænt undirrituð og rekjanleg t.d. með QR kóða. Traces kerfið býður upp á þennan möguleika og mun Matvælastofnun nota Traces vegna útgáfu vottorða til Bretlands. Traces er skráningar- og vottunarkerfi ESB sem heldur utan um innflutning dýra og eftirlitsskyldra afurða. Nýlega var bætt við möguleikanum á að gefa út vottorð vegna útflutnings frá ESB/EES og vottorðaform til Bretlands (GB) er að finna í kerfinu.

  • Til þess að sækja um vottorð í Traces er nauðsynlegt að hafa aðgang að kerfinu.
  • Allir geta sótt um aðgang en MAST þarf að staðfesta (validate) umsækjandann. 
  • Einn fulltrúi fyrirtækis getur verið skilgreindur sem stjórnandi (admin) og getur hann þá staðfest aðra starfsmenn fyrirtækisins.
  • Nauðsynlegt er að hafa rétt tollskrárnúmer vörunnar sem um ræðir þar sem vottorðaform tengist tollskrárnúmerum.
  • Umsækjandi skal skrá allar nauðsynlegar (stjörnumerktar) upplýsingar í Part I af vottorði og velur "submit for certification"

Umsóknir og afgreiðsla vottorða

  • Vottorð eru afgreidd á virkum dögum á afgreiðslutíma inn- og útflutningsdeildar
  • Senda skal inn fullbúna beiðni um vottorð a.m.k. sólarhring (virkir dagar) áður en varan er send úr landi.
  • Allar nauðsynlegar upplýsingar skulu vera til staðar til að hægt sé að gefa út vottorð. Vanti nauðsynlegar upplýsingar í vottorðið verður það ekki gefið út.
  • Vottorð eru afgreidd svo fljótt sem unnt er, en MAST áskilur sér sólarhring til að gefa út vottorð, svo fremi sem allar nauðsynlegar upplýsingar (og gögn) liggja fyrir.
  • Styttri afgreiðslutími er mögulegur fyrir ferskar afurðir en þá skal gera MAST viðvart.
  • Vottorð skulu gefin út í síðasta lagi sama dag og sending fer úr landi.

Sækja um vottorð

  1. Sækja um hleðslustaðfestingar með hefðbundnum hætti (búfjárafurðir til manneldis)
  2. Sækja um vottorð í Traces
  3. Tilkynna um vottorðabeiðni í þjónustugátt - umsókn nr. 9.02

Af hverju líka í þjónustugátt?

  • Tryggja þarf að beiðnin berist til MAST
  • Betri yfirsýn yfir umsóknir fyrir útflytjanda
  • Innheimt í gegnum þjónustugátt
  • Lögleg varðveisla gagna

Gagnlegir hlekkir

Hlekkir að upplýsingasíðum breskra yfirvalda:

Núverandi innflutningseftirlit í Bretlandi 

  • Innflutningur dýraafurða og aukaafurða skal tilkynntur og forskráður í IPAFFS. Tilkynna skal innflutning með a.m.k. fjögurra klst fyrirvara. Athugið! Þetta er í höndum innflytjanda í Bretlandi.
  • Lifandi dýr (þ.m.t. kímefni/erfðaefni): innflutningur skal skráður í IPAFFS (þetta gildir þó ekki um gæludýr sem flutt eru til Bretlands með fylgd).
  • Aukaafurðir í áhættuflokki 1 og 2: sækja skal um leyfi fyrirfram hjá DEFRA og forskrá sendinguna í IPAFFS.
  • Afurðir/vörur sem lúta sérstöku eftirliti (products subject to safeguard measures) skulu forskráðar í IPAFFS og þeim skal fylgja heilbrigðisvottorð.

Skilgreiningar

  • IPAFFS (Import of Products, Animals, Food and Feed System). Skráningarkerfi breskra yfirvalda fyrir innflutning lifandi dýra, dýraafurða og annarra áhættusamra matvæla  til Bretlands.  Innflytjandi í Bretlandi skal skrá sendingar með eftirlitsskyldum afurðum í IPAFFS.
  • DEFRA (Department for Environment, Food and Rural Affairs) – landbúnaðarráðuneyti Bretlands
  • APHA (Animal and plant health agency) – stofnun sem fer með eftirlit með löggjöf varðandi dýra- og plöntuheilbrigði (sambærileg Matvælastofnun)
  • BCP (Border control post) - landamæraeftirlitsstöð: eftirlitsstöð staðsett við þar sem landamæraskoðun/innflutningseftirlit á sendingum fer fram. Landamæraeftirlitsstöðvar eru skilgreindar m.t.t. vörutegunda/lifandi dýra sem stöðin getur tekið við. Yfirlit yfir landamæraeftirlitsstöðvar í Bretlandi.
Uppfært 31.01.2024
Getum við bætt efni síðunnar?