Aspartam
Aspartam er sætuefni (E951) sem er notað í gosdrykki og önnur orkulítil eða sykurskert matvæli. Annað heiti yfir sætuefnið er Nutrasweet. Aspartam samanstendur af tveimur amínósýrum þ.e. fenýlalanín og aspartiksýru ásamt methylhóp (CH3) og gefur frá sér orku eins og prótein eða 4 kcal/g. Þessi samsetning gefur frá sér afurð sem er 200 sinnum sætari en sykur (súkrósi) og þar af leiðandi þarf mjög lítið af sætuefninu í matvæli til að ná tilætluðum árangri (þ.e. gefa sætubragð) og fyrir vikið verða matvæli hitaeiningaminni en sambærileg matvæli sem innihalda sykur.
Sætuefni sem og önnur aukefni eru undir reglubundnu eftirliti og má einungis nota eftir að öryggi þeirra hefur verið staðfest með tilheyrandi rannsóknum og mati á gögnum þar af lútandi.
Í tengslum við nýja löggjöf Evrópusambandsins (EB) um aukefni var sett upp tímasett áætlun sem nær til ársins 2020 um endurskoðun allra aukefna sem leyfð voru fyrir 20. janúar 2009. Þar sem sætuefnin hafa nýlega verið metin eru þau síðust í röðinni í þeirri áætlun. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gerir nýtt áhættumat á hverju aukefni byggt á öllum vísindagögnum sem henni eru sendar í kjölfarið á auglýsingu EFSA eftir nýjum gögnum. Leyfð notkun aukefnisins er svo endurskoðuð með hliðsjón af nýju áhættumati ef ástæða er til.
Þrátt fyrir það hafa komið fram endurteknar beiðnir frá EB um að meta aspartam. Síðast í maí 2011 sendi framkvæmdastjórn EB beiðni til EFSA sem hóf þegar söfnun vísindagagna fyrir nýtt áhættumat á árinu 2012. Niðurstaða áhættumatsisn var síðan birt í desember 2013.
Ný álit EFSA í kjölfar beiðna EB um endurskoðun á áhættumati aspartams í kjölfar rannsókna Ramazzini stofnunarinnar í Bologna á Ítalíu (European Ramazzini Foundation, ERF) komu fram:
- 2006: Niðurstaða EFSA var að ekki væri ástæða til að breyta ADI gildinu fyrir aspartam.
- 2009: Niðurstaða EFSA var að það væri engin vísbending um hugsanleg erfðaeiturhrif (genotoxic) né krabbameinsvaldandi (carcinogenic) frá aspartam og ekki væri ástæða til að breyta ADI gildinu.
- 2011: Niðurstaða EFSA eftir að hafa metið 2 nýjar rannsóknaniðurstöður varðandi aspartam var að ekki væri ástæða til að meta áhættu uppá nýtt.
- 2013: Vísindalegt álit EFSA um endurmat á aspartam (E 951) sem aukefni í matvælum
Niðurstaða EFSA hefur ávallt verið sú að ásættanleg dagleg inntaka sem er 40 mg/kg/dag væri örugg. Ásættanleg dagleg inntaka hét áður daglegt neyslugildi (e. ADI=Acceptable Daily Intake)
ADI er það magn efnis í mat eða neysluvatni, sem talið er óhætt að neyta daglega alla ævi án þess að hætta stafi af. Magn efnis er gefið upp í mg efnis/kg líkamsþyngd. 60 kg maður má neyta 60xADI gildi á dag.
ADI-gildið tekur til allra aldurshópa líka barna en þá verður að taka tillit til líkamsþyngdar. Ásættanleg dagleg inntaka tekur ekki til þeirra sem hafa efnaskiptasjúkdóminn PKU en þeir sem þjást af honum mega alls ekki neyta matvæla sem innihalda amínósýruna fenýlalanín. Það er því skylt að merkja allar vörur sem innihalda aspartam með orðunum "inniheldur fenýlalanín".
Samkvæmt reglugerð um aukefni í matvælum eru mörk sett fyrir hversu mikið má vera af sætuefnum í hinum og þessum matvælum. Þessi mörk eru sett með tilliti til neysluhátta og þá líkum á því að magn fari yfir ADI-gildi við neyslu. Síðast en ekki síst er litið til þess hversu mikið þarf af efninu til að ná fram sætubragði í tilteknum matvælaflokkum.
Fyrir utan að strangt eftirlit er með aukefnum bera stjórnvöld í hverju landi ábyrgð á því að neysla aukefna sé könnuð til að sjá hvort neytendur séu að innbyrða aukefni í magni umfram ásættanlega daglega inntöku (ADI). Á Íslandi fer Matvælastofnun með það hlutverk.
Neysla sætuefna á Íslandi
Fyrsta skrefið í að meta neyslu aukefna á Íslandi var stigið þegar metin var inntaka á sætuefnum í gögnum landskönnunar Manneldisráðs Íslands árið 2002. Sætuefni var helst að finna í sykurlausum gosdrykkjum og var inntakan metin út frá neyslu á sykurlausum gosdrykkjum (sykurskertur svali tekinn með). Þátttakendur voru á aldrinum 15-80 ára og voru 1242 talsins. Niðurstöður eru í eftirfarandi töflu:
Sætuefni |
Meðalneysla (mg/kg/dag) |
Ásættanlega dagleg inntaka, ADI (mg/kg/dag) |
Meðalneysla sem prósentuhlutfall af ADI |
Aspartam |
2,35 ± 2,0 |
40 |
6 % af ADI |
Asesúlfam-k |
0,7 ± 0,6 |
15 |
5 % af ADI |
Cyklamat |
2,3 ± 1,2 |
7 |
33 % af ADI |
Ítarefni
Vefur EFSA:
Vefur Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins: