Fara í efni

Nýrnaveiki í laxfiskum

Orsök

Smitefni

Sjúkdómnum veldur Renibacterium salmoninarumi, sem er óhreyfanleg staflaga baktería. Bakterían er sérstök að ýmsu leyti og er flokkunarfræðilega sú eina í sinni ættkvísl. Sýkillinn er m.a. mjög vandlátur m.t.t. næringar og þarf sérstakt valæti til ræktunar á rannsóknastofu og getur tekið allt að 12 - 19 vikur að fá nægilegan vöxt til greiningar. Bakterían vex og tímgast vel við hita á bilinu 5 - 22°C, með kjörhita um 15°C.

Sögulegt samhengi

Nýrnaveiki var í fyrsta sinn greind í villtum laxi úr ánum Spey og Dee í Skotlandi á 4. áratug síðustu aldar. Árið 1968 var nýrnaveiki fyrsti smitsjúkdómur sem staðfestur var í eldisfiski hér á landi. Veikin kom upp í laxaseiðum í eldisstöð við Elliðaár sem rekin var af Stangveiðifélagi Reykjavíkur og var bakterían greind bæði á Rannsóknastofu Háskólans og Tilraunastöðinni að Keldum. Nýrnaveiki er landlæg í villtum laxfiskastofnum hér við land og fer ómældur tími og fjármagn í að verjast veikinni.

Veikinni hefur skotið upp öðru hvoru og þá fyrst og fremst í laxeldi, en einnig í eldi bleikju og einstaka tilfellum í regnboga. Ítarleg úttekt á klakfiski hefur átt sér stað síðan 1985. Veikin er afar erfið viðureignar og ekki óalgengt að eldisstöðvar komist í rekstrarþrot eftir að smit berst í fiskinn. Engin lækning er til og bóluefni ekki fáanleg. Bakterían leynist í villtum fiski og getur þannig hæglega borist í eldisstöð með frískum smitbera.

Faraldsfræði

Móttækilegar fisktegundir

  • Einungis laxfiskar sem sýkjast, þ.e.a.s. Atlantshafslax (Salmo salar), vatnaurriði og sjóbirtingur (Salmo trutta), Kyrrahafslax (Oncorhynchus ssp.), regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss), bleikja (Salvelinus ssp.), harri (Thymallus thymallus) og Dónárlax (Hucho hucho)
  • Tegundir laxfiska eru misnæmar. Atlantshafslaxinn er mjög næmur en regnbogi er mjög sterkur fyrir. Bleikjan kemur þar mitt á milli.
  • Tíðni í villifiskum er breytileg eftir svæðum og tegundum

Útbreiðsla

Nýrnaveiki hefur greinst í laxfiskum víðast hvar um heiminn, þó ekki í Ástralíu:

  • Norður Ameríku
  • Suður Ameríku
  • Evrópu
  • Japan

Sjúkdómsferlið

  • Sjúkdómstilfelli eru oft árstíðabundin og í takt við þroskaferli fiskanna. Í ferskvatni er algengt að nýrnaveiki komi upp með hækkandi eldishita að vori en í sjókvíaeldi er ekki óalgengt að klínísk einkenni komi upp nokkrum vikum eftir að seiði hafa tekið út sjóþroska og verið flutt í kvíar.
  • Sjúkdómsferlið tekur mislangan tíma hjá fiskum. Meðgöngutími getur verið yfir tvö ár frá því smit á sér stað og þar til sýnileg einkenni koma í ljós.
  • Sýkin er ýmist dulin eða sýnileg, frískir smitberar eru algengir.
  • Oft talsverður munur á afföllum í aðskildum faröldrum.
  • Áhrifavaldar eru m.a.:
    - Fisktegund
    - Aldur
    - Umhverfisþættir

Smituppspretta

Rannsóknir og reynslan sýnir að upphaf smits má ávallt rekja til tengsla við villta náttúru, frískir smitberar leynast víðast hvar í ám, vötnum og sjó. Bakterían er mjög hýsilbundin og smithætta stafar því umfram allt frá sýktum fiskum. Sýkill lifir aðeins takmarkaðan tíma utan hýsils (næringarkröfur)

Smitdreifing

Smitleið:

  • Bein eða óbein snerting fiska
  • Smitmengað ferskvatn og sjór
  • Með lífrænu efni, s.s. blóði, saur, þvagefnum, slími og fiskholdi
  • Inni í hrognum!
  • Menn og áhöld
  • Geymsla villiklakfiska
  • Flutningstæki, net, tól og tæki

Sjúkdómsgreining

Eins og áður segir er meðgöngutími sjúkdóms mjög breytilegur, allt eftir fisktegundum, umhverfisaðstæðum og álagi við eldi á hverjum stað.

Klínísk einkenni

Nýrnaveiki er langvinnur og þrálátur sjúkdómur. Þróun sjúkdómsins er því hæg og einkennist m.a. af nokkuð stöðugum afföllum í eldiskerjum. Sjúkir fiskar verða oft dökkir á lit, vökvi safnast í kviðarhol og oft má sjá útstæð augu. Snemma í ferlinu má greina væga blæðingu í roði, ekki síst við uggarót eyrugga. Þessar blæðingar geta þróast yfir í sár á roði, einkum á framanverðum kvið. Við krufningu blasa oftast við föl og blóðlítil innri líffæri. Einkennandi fyrir veikina eru svo ljós-gráleitir hnútar, ekki síst í nýrum sem verða föl og bólgin, en einnig í lifur, milta og hjarta.

Meinafræðilegar breytingar

Vegna skemmda sem bakterían veldur í nýrnavef kemst seltubúskapur fiskanna úr jafnvægi og þar með á sér stað aukin vökvamyndun sem m.a. safnast upp í kviðarholi og veldur útstæðum augum. Í nýrnavef safnast bakterían í stóra hópa, sem ásamt fjölda bólgufrumna mynda áberandi bólguhnúta.

Mismunagreining

Vefjameinafræði og aðrar sérhæfðar greiningaraðferðir eru mikilvæg tól til að greina á milli nýrnaveiki og annarra sjúkdóma sem hafa áþekk klínísk einkenni.

Sjúkdómar sem erfitt getur verið að aðgreina frá nýrnaveiki á einkennum einum saman eru:

  • Aðrar bakteríusýkingar, s.s. fiskaberklar (Mycobacterium marinum) og Carnobacterium piscicola
  • Sveppasýkingar á borð við nýrnasvepp (Exophiala psychrophila) og sundmagasvepp (Phoma herbarum)
  • Sníkjudýr, s.s. einfrumungurinn Ichthyophonus hoferi og nýrnaagðan Phyllodistomum umblae
  • Nýrnakölkun
  • Vefjaskemmdir af völdum bóluefna með ertandi ónæmisglæðum

Greiningaraðferðir og sýnatökur

Sjúkdómsgreining er byggð á sjúkdómssögu, klínískum einkennum, krufnings-niðurstöðum, vefjameinafræði og sértækum greiningaraðferðum. Svo staðfesting á greiningu nýrnaveiki fáist samþykkt með formlegum hætti verða jákvæðar niðurstöður tveggja ólíkra og sértækra greiningaraðferða að liggja fyrir, ásamt því að klínískum einkennum og krufningsniðurstöðum beri saman.

Aðferðir

Greiningaraðferðir þurfa að vera hraðvirkar, sértækar og næmar ef þær eiga að nýtast í reglubundinni skimun á mörgum sýnum. Aðferð sem uppfyllir þessi skilyrði er einna helst ELISA-próf sem notað hefur verið reglubundið á Keldum síðan haustið 1992. Einnig hefur RT-PCR-próf (sem greinir erfðaefni bakteríunnar) verið í þróun á liðnum misserum og stefnt að því að taka þá aðferð upp samhliða ELISA. Þær aðferðir sem nota má við greiningu nýrnaveiki eru eftirfarandi:

  • Próf til mælingar á mótefnavaka sem bakterían ber utan á sér og seytir einnig:
    - ELISA-próf
  • Greining bakteríu:
    - RT-PCR (DNA-greining)
    - Smásjárskoðun á gram-lituðu stroksýni úr vefjaskemmdum
  • Einangrun bakteríu: Sáning í valæti (t.d. SKDM)
  • Ónæmispróf:
    - Flúrljómandi mótefnapróf (IFAT) (litun á nýrnavef)
  • Vefjameinafræði:
    - Aðferð til að greina á milli nýrnaveiki og annarra sjúkdóma sem hafa áþekk klínísk einkenni er að taka vefsýni úr skemmdum og herða í 10% formalín-dúa. Sýnin eru steypt í paraffín og örþunnar sneiðar litaðar með sértækri litun og vefjabreytingar síðan metnar með smásjárskoðun

Leiðbeiningar við sýnatöku sem fara á í ELISA-próf vegna nýrnaveiki

Í innri líffærum, einkum nýrum, lifur, milta og hjarta, skal leita að ljósum blettum, sem líkjast sjúkdómsbreytingum af völdum nýrnaveiki. Ef engar slíkar breytingar sjást skal taka tvo nýrnabita, þ.e. einn úr fram- og annan úr afturnýra, úr hverjum fiski (stærð bita skal vera u.þ.b. 1 x 1 x 0,5 sm).

Vefjabitar úr tveimur fiskum sömu tegundar fari saman í poka. Hins vegar skal á það bent að ef annar fiskurinn reynist sýktur, verður að eyða hrognum beggja. Fiskeldismenn geta því valið hvort sýni úr einum eða tveimur fiskum fara saman í poka. Eitt sýni í poka tvöfaldar kostnaðinn við nýrnaveikirannsókn.

Ef framangreindar sjúkdómsbreytingar sjást, má ekki blanda sýnum úr þeim fiski saman við sýni úr öðrum fiskum. Sýni skal tekið af þeim líffærahluta þar sem breytingar eru og setja sér í poka, og svo að auki þau nýrnasýni sem áður eru nefnd, í annan poka. Einnig ætti að skera nettan bita af líffærinu þar sem breytingar eru og setja í bufferað formalín. Vefjabiti skal nema um tíunda hluta formalínlausnar í sýnaglasi. Mikilvægt er að skrá þessi sýni í athugasemdadálk nýrnaveiki-eyðublaðs.

  • Smitgát skal höfð við sýnatöku
  • Gangið vel frá sýnum í hvern poka svo hugsanlegt smit berist ekki milli sýna
  • Vefjasýni sem komin eru í sýnapoka skal geyma kæld þar til þeim er komið fyrir í flutningskassa (sýni má frysta ef ekki eru tök á að senda þau strax)
  • Vanda verður númeringu á sýnapokum

Til að hámarka árangur við greiningu:

  • Velja slappa / sjúka fiska
  • Velja næmustu fisktegundirnar
  • Velja elstu fiskana
  • Endurtaka rannsókn á viðbótarfiskum
  • Nota næmustu greiningaraðferðirnar

Varnir og viðbrögð

Sjúkdómsmeðferð og forvarnir

Sjúkdómsmeðferð:

  • Lyf duga illa og nánast ekki gegn veikinni
  • Lyf eru einstaka sinnum notuð á klakfiska til að draga úr smitmagni, ekki leyfilegt hér á landi nema við sérstakar kringumstæður og háð leyfi fisksjúkdómanefndar

Bóluefni:

  • Ekki tiltæk enn í dag þrátt fyrir umfangsmiklar tilraunir og þróunarvinnu

Smitvarnir

Bakterían er í villifiskum og þeirra nánasta umhverfi:

  • Eldisvatn
  • Mengun: flutningstæki, áhöld og menn

Smit getur borist inni í hrognum:

  • Klakfiskar (hrygnur) af villiuppruna
  • Nauðsyn hraðvirkra greiningaraðferða

Smit getur dulist lengi í alifiskum:

  • Aðskilnaður tegunda, árganga og hópa í eldisstöð
  • Flutningur milli stöðva: hrogn, fiskar, flutningstæki, áhöld og menn

Eftirlit og skimun gegn nýrnaveiki

Eins og áður segir hefur skipulagt eftirlit og skimun gegn nýrnaveiki verið stunduð hér á landi síðan 1985. Niðurstöður skimunar sl. tvo áratugi benda til þess að dulið smit í villtum laxfiskum er yfirleitt á bilinu 0,5-3%, þó misjafnt á milli ár. Árabil hafa komið þar sem ekkert smit greinist en þess á milli koma eins konar bylgjur þar sem smittíðni stígur og getur jafnvel orðið fremur há.

Eldismönnum og fiskræktendum er uppálagt að láta framkvæma sýnatöku úr laxfiskum sem nýta skal til undaneldis. Ef um er að ræða fisk af villtum uppruna skal taka sýni úr öllum hrygnum. Ef um eldisfisk er að ræða með þekkta sjúkdómasögu er tekið ákveðið tölfræðilegt úrtak, yfirleitt 60 fiskar. Hrognum undan öllum hrygnum sem gefa jákvætt svar í ELISA-prófi er fargað.

Uppfært 11.12.2019
Getum við bætt efni síðunnar?