Ichthyophonus í síld
Orsök
Smitefni
Ichthyophonus hoferi er í dag skilgreint sem sníkjudýr en var í áratugi talinn til sveppa. Sníkillinn herjar á ýmsar tegundir sjávarfiska en er ekki skaðlegur mönnum eða öðrum spendýrum. Ichthyophonus var fyrst lýst sem sjúkdómsvaldi í fiskum af Hoferi árið 1893. Sníkillinn var visst vandamál innan greiningarfræðinnar því hann féll ekki fullkomlega inn í flokkunarkerfi þekktra sveppa en útlit og hegðun minnir sterklega á svepp. Það var ekki fyrr en með tilkomu nákvæmrar DNA-greiningar að tegundin var færð yfir í ákveðinn flokk sníkjudýra. Í dag er Ichthyophonus skilgreindur sem einfrumungur eða svipudýr (Choanoflagellata). Á Norðurlöndum er þessi hópur svipudýra nefndur krageflagellat og til að undirstrika áðurnefndan vandræðagang við greiningu þá hefur Ichthyophonus hvorki kraga né svipur (flageller)!
Faraldsfræði
- Fiskar sýkjast gegnum meltingarveginn er gró á dvalarstigi (100-200 míkrómeter) berast þangað, t.d. ef þeir éta sýkta vefi úr öðrum fiskum en einnig lenda dvalargróin inn í fæðuvefi hafsins og berast þannig áfram í nýja hýsla.
- Langur tími getur liðið frá því smit berst í fiska og þar til fer að bera á afföllum. Oft há dánartíðni seint í ferlinu þar sem þéttleiki, streita og álag á fiski er mikil. Þetta er þó háð tegund og næmi fiska.
- Slæmar efnahagslegar afleiðingar ef smit nær sér á strik í stórum hjörðum móttækilegra og viðkvæmra tegunda.
Móttækilegar fisktegundir
Flestar tegundir kaldsjávarfiska eru móttækilegar fyrir Ichthyophonus en síld og skarkoli eru þær tegundir sem eru hvað viðkvæmastar. Ef smit nær að byggja sig upp t.d. í síldarhjörð getur slíkt endað með massívum dauða, en umfang affalla er háð lífmassa hjarðar í hverju tilfelli. Rannsóknir frá Skotlandi benda til þess að skarkoli hafi lítinn viðnámsþrótt gegn sníklinum og að sýktir fiskar drepist á 2 - 3 mánuðum. Smit af völdum Ichthyophonus hoferi hefur verið staðfest í yfir 80 tegundum fiska, þ.á.m. laxi, silungi, þorski, ufsa, ýsu, lýsu, slétthala, lýr, grásleppu, rauðsprettu og kolmunna.
Smitdreifing
- Smit berst í fiska í gegnum meltingarveginn er gró á dvalarstigi berast þangað með sjó eða ef þeir éta sýkta vefi úr öðrum fiskum en einnig lenda dvalargróin inn í hina ýmsu fæðuvefi hafsins og berast þannig áfram í nýja móttækilega hýsla.
- Margar tegundir fiska eru frískir smitberar, s.s. ýsa og ufsi.
- Varhugavert er að gefa eldisfiski, s.s. laxfiskum og þorski, ferskt blautfóður.
- Frysting (÷ 20°C) virðist drepa sníkilinn.
- Ichthyophonus hoferi nær sér ekki á strik í ferskvatni.
Smituppspretta
- Ichthyophonus hoferi er mjög gamalt sníkjudýr og hefur lifað með fiskum í aldir og án efa blossað upp sem faraldur með vissu millibili, s.s. í síld og skarkola. Við nákvæma skimun á síldarafla yfir árabil hefur komið í ljós að sníkillinn blundar í stofninum á flestum tímum, en í afar litlu magni (< 1 promill).
Útbreiðsla
Ichthyophonus hoferi finnst í kaldsjávartegundum fiska um allan heim. Svo virðist sem alvarlegustu sýkingarnar hafi komið upp í norðanverðri Evrópu, í N-Ameríku og við Japan.
Sjúkdómsgreining
Meðgöngutími frá því smit á sér stað og þar til sjúkdómseinkenni koma í ljós er mjög breytilegur, allt eftir næmi tegunda, umhverfisaðstæðum og álagi á hverjum.
Klínisk einkenni
Greina má sýkinguna snemma sem hvíta bólgubletti í blóðríkum innri líffærum, s.s. hjarta, lifur, milta og nýrum. Einnig verður vart aukins vökva í kviðarholi. Síðar kemur sýkingin fram í holdi og sést gjarnan sem blóðugt hold. Sníkillinn seytir frá sér efni sem leysir upp vöðva og leiðir til vondrar sætlegrar lyktar. Þessir bólguhnútar innihalda margkjarna dvalargró sníkjudýrsins. Í síld sjást ákveðin roðeinkenni á síðari stigum sjúkdómsins, getur yfirborðið þá minnt á sandpappír við viðkomu. Í þeim tilfellum sem sníkillinn sýkir taugavef hefur það áhrif á sundhegðun fiskanna.
Meinafræðilegar breytingar
Eftir að fiskurinn hefur fengið í sig dvalargróin spíra þau í meltingarveginum og umbreytast í svonefnt amoeboblasts við það að innihald þeirra skiptir sér upp í smærri einingar sem þróast yfir í ein- eða tvíkjarna hreyfanlega amöbugerð. Þessar amöbur (plasmodia) þrengja sér inn í veggi meltingarfæranna og berast síðan með blóðflæði um fiskinn. Þær setjast síðan að í ýmsum líffærum, sérstaklega þeim blóðríku, s.s. hjarta, nýrum, lifur og milta, en einnig í öðrum líffærum og í holdi. Þar sem amöbur setjast að myndast blöðrur (cyst) vegna samspils sníkils og hýsils. Blöðrurnar stækka nokkuð hratt í upphafi og innan þeirra verður ör kjarnaskipting hjá sníklinum sem að lokum leiðir til myndunar nýrra dvalargróa sem bíða þess að sýkja nýjan hýsil. Það eru ekki eingöngu dvalargró sem myndast, einnig myndast inngró (endospor) sem berast áfram um hýsilinn og þroskunarferillinn er endurtekinn. Þannig hleðst upp gífurlegur fjöldi hvíldargróa sem fer að há hýslinum og getur að lokum leitt til dauða.
Mismunagreining
Sjúkdómar sem erfitt getur verið að aðgreina frá Ichthyophonus hoferi á einkennum einum saman:
- Sjúkdómsvaldar sem geta leitt til bólguhnúta i innri líffærum sem ekki eru ólíkir því sem Ichthyophonus veldur eru m.a.: Nýrnaveiki í laxfiskum (Renibacterium salmoninarum), fiskaberklar (Mycobacterium ssp.) og sveppasýking af völdum Exophiala ssp.
Greiningaraðferðir og sýntökur
Aðferðir
Sjúkdómsgreining er aðallega byggð á sjúkdómssögu, klínískum einkennum, krufningsniðurstöðum og vefjameinafræði. Einfaldast er að leita eftir dvalargróum sníkilsins með því að taka stroksýni úr sýktum vöðva og setja á gler og skoða undir smásjá. Til staðfestingar þarf að sjást dæmigerð umbreyting á dvalargróum yfir í ein- eða tvíkjarna hreyfanlegar amöbur. Einnig er algengt að nýta vefjameinafræði (histólógía), en þá er leitað eftir fleirkjarna dvalargróum innan þykks hjúps af bindivef í vefjasneiðum.
Sýni
Best er að senda fiskinn heilan á ís til rannsóknarstofu.
Varnir og viðbrögð
Eins og áður segir er sníkjudýrið útbreitt í yfir 80 kaldsjávartegundum fiska um gervallan heim og því engin leið að komast hjá smiti og jafnvel alvarlegum faröldrum. Engin bóluefni eða lækning er til gegn Ichthyophonus hoferi.
Til að fyrirbyggja smit í eldisfisk ber að forðast ómeðhöndlað blautfóður.
Síðstu ca. 150 árin hafa komið upp a.m.k. 7 - 8 alvarlegir faraldrar í Norð-Vestur Atlantshafsstofninum af völdum Ichthyophonus-sýkinga. Í St. Lawrence flóa við Kanada virðist sem slíkur faraldur hafi geisað í síld árið 1898 og síðan aftur 1913-14 og 1954-55. Í Main flóa eru þekktir faraldrar frá árunum 1930-31 og 1946-47.
Í Norsk-íslenska síldarstofninum kom upp sýking af völdum Ichthyophonus árin 1991-1992, en slík sýking mun ekki hafa verið þekkt fyrr í þeim stofni. Um svipað leyti var faraldur í síldarstofnum í Norðursjó. Svo virðist sem þeir faraldrar sem nefndir eru hér að ofan hafi allir staðið í um 2 ár.
Nýjasti faraldurinn er sá sem nú stendur yfir í sumargotssíldinni við Suður og Vestur Ísland. Staðfesting hans fékkst með greiningu sníkjudýrsins þann 28. nóvember 2008, en þá virtist smittíðni taka stórt stökk og aukast kröftuglega. Í fyrstu virtist smit bundið við göngur í Breiðafirði, en nokkrum dögum síðar var staðfest smit í Stakksfirði við Njarðvík og við norðanverðar Vestmannaeyjar. Við rannsókn starfsmanna Hafrannsóknastofunar á afla skipa frá 1. des. 2008 kom í ljós að smittíðni í síld úr Breiðafirði var um 67% og í Stakksfirði um 40%. Þess má geta að norska Hafrannsóknastofnunin krefst tilkynningar ef smittíðni fer um og yfir 2% í veiddri síld, en slík smittíðni er talin benda til þess að faraldur sé í uppsiglingu.