Fara í efni

Ársskýrsla MAST 2023

Árið í orðum

Á árinu 2023 hefur Matvælastofnun horft mikið innávið með það að markmiði að efla og styrkja starfsfólk stofnunarinnar. Unnið hefur verið meðal annars að því styðja stjórnendur í að eflast og halda betur utan um starfsfólkið sitt með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafafyrirtækis. Eins hefur verið lögð meiri áhersla á aukna símenntun, upplýsingagjöf innan stofnunarinnar og jákvæðan starfsanda. Þessi vinna hefur skilað sér í betri starfsánægju og öflugri menningu en það má sjá bæði í innanhúss könnunum ásamt könnun Sameykis á Stofnun ársins. Þessu verki er hins vegar engan veginn lokið og áframhaldandi vinna verður í að gera Matvælastofnun að enn betri vinnustað þar sem áfram ríkir traust og gagnkvæm virðing þar sem ákvarðanir eru teknar á þverfaglegum vettvangi.

Ár 2023 hefur verið ár uppbyggingar. Töluverð innanhúss vinna hefur átt sér stað hjá Matvælastofnun á árinu 2023 varðandi skipulagningu eftirlits, framkvæmd, samvinnu, þjálfun og uppbyggingu. Stofnunin er að vinna með hugtakið „hnitmiðað eftirlit“ sem gengur út á að straumlínulaga eftirlit og einblína á heildarmyndina hjá eftirlitsþega en ekki að skoða sömu atriði árlega. Eins verður innleitt verklag átaksverkefna í eftirliti þar sem áhersla er á atriði sem almennt standa út af innan málaflokka. Tilgangurinn með breyttu verklagi er að nýta best tíma starfsfólks og tíma viðskiptavinar ásamt því að reyna að grípa betur atriði sem þarf að bæta úr. Þetta er viðamikil vinna og henni er ekki lokið og mun halda áfram árið 2024.

Á árinu hófst vinna við þróun á nýjum eftirlitsgagnagrunni fyrir eftirlit í frumframleiðslu. Núverandi gagnagrunnur uppfyllti ekki nægilega vel þarfir eftirlits með frumframleiðslu ásamt því að vera hýstur og þjónustaður af utanaðkomandi fyrirtæki. Því var metið að hægt væri að draga úr kostnaði ásamt því að hanna kerfi innanhúss sem þjónaði betur þörfum eftirlitsfólks með því að þróa innanhúss eftirlitskerfi og gagnagrunn. Prófanir hjá eftirlitsfólki hófust í lok árs og vonir standa til að kerfið verður komið í fulla notkun á fyrstu mánuðum 2024.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar á eftirliti með velferð dýra kom út á árinu og sýndi skýrt erfiða fjárhagsstöðu stofnunarinnar vegna núverandi gjaldskrár. Núverandi gjaldskrá stendur einungis undir tæplega helmingi raunkostnaðar eftirlits og stofnunin getur engan veginn sinnt sínu lögbæra hlutverki og nauðsynlegu eftirliti í núverandi fjárhagsástandi. Matvælastofnun hefur forgangsraðað eftirliti umfram aðra þjónustu og því hefur ríkisframlag sem er ætlað í önnur verkefni verið notað til þess að halda úti mikilvægu hlutverki stofnunarinnar sem eftirlitsstofnun, með því markmiði að standa vörð um matvælaöryggi ásamt heilsu og velferð dýra og plantna. Gott samstarf Matvælastofnunar og Matvælaráðuneytisins hefur verið við endurskoðun gjaldskrárinnar frá grunni með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafafyrirtækis og væntingar eru til að ný gjaldskrá verði innleidd á árinu 2024.

Stjórnvöld samþykktu viðamikla uppbyggingu á stjórnsýslu og eftirliti vegna fiskeldis í takt við skýrslu Ríkisendurskoðunar á fiskeldi. Afleiðing er að sérstakt fjármagn var veitt til Matvælastofnunar í uppbyggingu á mannafla og innviðum sértækt er varðar fiskeldi, útgáfu rekstrarleyfa og eftirlit sem kemur til framkvæmda á árinu 2024 en undirbúningurinn hófst á árinu 2023. Auglýst var á árinu í sex nýjar stöður innan fiskeldisdeildar, fjárfest var í neðansjávardrónum og eftirlit endurskilgreint í takt við núverandi löggjöf. Áframhaldandi uppbygging mun standa yfir árið 2024 ásamt komandi árum. Uppbygging á stjórnsýslu og eftirliti innan fiskeldis er mikilvæg í ljósi vaxtar geirans undanfarin ár en stjórnsýslan hefur ekki náð að fylgja nægilega vel með þeim vexti. Stór mál hafa komið upp, t.a.m. álagning stjórnsýslusektar vegna vantilkynnts stroks, mikil lús á Vestfjörðum sem olli því að slátra varð töluverðum fjölda fiska og strok kynþroska lax sem fannst í fjölda laxveiði áa á m.a. Norðurlandi.

Viðamikil mál á sviði dýravelferðar komu á borð stofnunarinnar og má þá helst nefna eftirlit með velferð hvala við veiðar. Er þetta í fyrsta skipti sem stofnunin hefur brugðist við vegna velferðarbrota við hvalveiðar og hefur því stofnunin lagt línuna ef um áframhaldandi veiðar verður að ræða.

Við horfum bjartsýn fram á veginn og Matvælastofnun mun halda áfram að eflast og styrkjast. Við höfum markað okkur skýra stefnu á sviði matvælaöryggis, dýraheilsu og velferðar ásamt plöntuheilsu en stofnunin stendur vörð um þessi málefni í íslensku samfélagi. Styrkur stofnunarinnar er mannauðurinn og innan stofnunarinnar starfa hæfir og öflugir sérfræðingar á öllum málefnasviðum stofnunarinnar. Við höldum því ótrauð áfram.

Eftirlit

Eftirfarandi súlurit sýnir hlutfall skoðunaratriða sem metin voru í lagi í eftirliti á árinu 2023, eftir starfsgreinum:

Skoðunaratriði í lagi 2023

Rekstur

Aukning var á gjöldum á árinu 2023 samanborið við fyrra ár en þau numu tæplega 2,39 milljörðum. Tekjur voru um 2,08 milljarðar og þar af er framlag ríkisins rúmlega 1,57 milljarðar. Afkoma ársins fyrir fjármagnsliði var því neikvæð sem nemur um 311 milljónum króna í samanburði við 207 milljónir árið á undan. Flest allir kostnaðarliðir hækkuðu verulega á milli ára. Laun og launatengd gjöld vega þar mest. Fyrirhuguð innleiðing nýrrar gjaldskrár Matvælastofnunar í byrjun árs raungerðist ekki sem skýrir stærsta hluta tapsins.

Þess má geta að flokkun tekna og gjalda í rekstrarreikningnum sem er hér meðfylgjandi er örlítið frábrugðin flokkun í birtum ársreikningi stofnunarinnar en þrátt fyrir það er niðurstaða ársins sú sama enda aðeins breyting á milli innri flokka.

Rekstrarreikningur Mast 2023-Skipting kostnaðar

 Vöktun

Varnarefnaleifar í matvælum 

Matvælastofnun gerir árlega áætlun um sýnatökur vegna varnarefnaleifa, bæði í innfluttum matjurtum og innlendri ræktun. Framkvæmd sýnatöku og viðbrögð við niðurstöðum yfir hámarksgildum eru á hendi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna sem skv. lögum fara með eftirlit með frumframleiðslu matjurta sem og með innflutnings- og dreifingaraðilum þeirra. Árið 2023 voru tekin 156 sýni, þar af 16 af innlendri ræktun.

Tvö sýni (1,3%) bæði af innfluttum afurðum, reyndust vera með varnarefnaleifar yfir leyfilegum hámarksgildum. Í meirihluta sýna (59%) greindust engar leifar efna. Efni innan leyfilegra hámarksgilda greindust í 40% sýna. Til samanburðar reyndust 96,3% allra sýna í Evrópu vera innan marka árið 2022.

Tafla 1 - Varnarefnaleifar í matvælum - hlutfall sýna sem voru í lagi þ.e. án varnarefnaleifa eða með leifar undir hámarksgildum

Varnarefnaleifar í matvælum 2023- sýni í lagi

Tafla 2 - Matvæli með varnarefnaleifar yfir hámarksgildum

Varnarefni í matvælum 2023 - sýni yfir hámarksgildum

Ástæður þess að varnarefnaleifar eru yfir hámarksgildi geta verið mismunandi. Þegar um innfluttar afurðir er að ræða er ástæðan oft sú að stífari reglur eru um notkun varnarefna innan EES en í landinu þar sem matvælin eru framleidd. Fyrir sum efni eru hærri leyfileg hámarksgildi og í sumum tilfellum er um að ræða efni sem er bannað að nota við ræktun á EES svæðinu en ekki í upprunalandinu. Þá getur ástæðan einnig verið að reglum við notkun er ekki fylgt s.s. of mikið notað eða uppskorið of snemma eftir meðhöndlun.

Efnaleifar í dýraafurðum

Tafla 1 Landsbundin áhættumiðuð eftirlitsáætlun 2023

Efnaleifar í dýraafurðum 2023-Áhættumiðuð eftirlitsáætlun

Tafla 2 Landsbundin slembivals eftirlitsáætlun 2023

Efnaleifar í dýraafurðum-slembi eftirlitsáætlun

Tafla 3 Landsbundin aðskotaefna eftirlitsáætlun 2023

Efnaleifar í dýraafurðum 2023-aðskotaefna eftirlitsáætlun

Nánari upplýsingar er að finna undir Efnaleifar í dýraafurðum á vef Matvælastofnunar.

Skimun fyrir dýrasjúkdómum

Dýrasjúkdómar 2023

 Nánari upplýsingar er að finna undir Dýrasjúkdómaskimun á vef Matvælastofnunar.

Súnur


   Salmonella og kampýlóbakter í alifuglum

   Salmonella í svínum

 

Inn- og útflutningur

Innflutningur afurða

Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi dýraafurða og tiltekinna eftirlitsskyldra matvæla sem ekki eru úr dýraríkinu.

Starfræktar eru fimm landamæraeftirlitsstöðvar (landamærastöðvar) á landinu þar sem innflutningseftirlit fer fram. Eftirlit felst í skoðun á innflutningsgögnum en tiltekið hlutfall sendinga eru skoðaðar nánar og þá er sýnataka framkvæmd skv. áhættumati.

Innflutningur hefur aukist mikið á undanförnum árum. Helsta skýring þess er að Bretland gekk úr ESB og varð þriðja ríki frá og með 1. janúar 2021 og þar með varð innflutningur breskra dýraafurða eftirlitsskyldur. Aukning í fjölda sendinga er því fyrst og fremst til komin vegna innflutnings frá Bretlandi. Frá þriðju ríkjum er töluvert flutt inn af matvælum tilbúnum til neyslu, bæði kjöt- og mjólkurvörum en einnig er flutt inn fóður, m.a. til fiskeldis sem og hráefni til frekari vinnslu eins og lýsi og iðnaðarrækja.

Sendingar – fjöldi og skipting eftir landamærastöðvum

Hér má sjá yfirlit yfir fjölda sendinga (e. consignments) sem lúta eftirliti Matvælastofnunar á landamærastöðvum á Íslandi. Sending er skilgreind sem eining sem tilheyrir einu vottorði, svokölluðu CHED (common health entry document). Á bakvið eitt vottorð geta verið nokkrir gámar (t.d. lýsi) en algengara er að einn gámur innihaldi margar sendingar. Sem dæmi getur einn gámur innihaldið bæði kjöt og mjólkurafurðir en alla jafna ná vottorð eingöngu yfir eina tegund afurðar.

Fj. sendinga-CHED 2015-2024

Árið 2023 komu 1866 sendingar til eftirlits á landamærastöðvum á Íslandi sem skiptust á landamærastöðvar eins og hér sést:

Fj sendinga eftir landamærastöðvum 2023

EES afurðir fluttar inn frá Bretlandi

Í kjölfar Brexit varð meira um það fyrirkomulag þar sem vörur eru fluttar út úr EES til þriðja ríkis og síðan aftur inn á EES. Í þeim tilfellum þegar vörur með EES uppruna eru fluttar til Bretlands og síðan til Íslands er heimilt fyrir bresk yfirvöld að gefa út sk. geymsluvottorð en þá votta bresk yfirvöld að ekki hafi verið átt við afurðirnar (sem hafa EES uppruna) í Bretlandi. Rúmlega 37% sendinga (692 talsins) sem fluttar voru til Íslands árið 2023 voru slíkar sendingar.

Innflutningur hunda og katta

Árið 2023 voru innfluttir hundar og kettir alls 592 talsins sem er nánast sami fjöldi og árið áður. En árin þar á undan hafði verið stöðug aukning ef frá er talið árið 2020 þar sem Covid hafði mikil áhrif á flug. Tvær einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti eru starfræktar á Íslandi. Allir innfluttir hundar og kettir skulu uppfylla sérstök heilbrigðisskilyrði fyrir innflutning og dvelja svo 2 vikur í einangrun við komuna til landsins.

Fj innfluttra hunda og katta 2023-2023

Annar eftirlitsskyldur innflutningur

Auk hunda og katta er annar innflutningur sem fellur undir lög um innflutning dýra, svo sem frjóegg, hundasæði, nautgripafósturvísar og svínasæði. Búrfuglar og nagdýr eru flutt inn af og til, alla jafna í tengslum við búferlaflutninga eigenda. Ýmis notuð landbúnaðartæki og áhöld geta borið með sér smitefni og skal slíkur innflutningur því lúta eftirliti og uppfylla sérstök skilyrði. Matvælastofnun hefur einnig eftirlit með innflutningi plantna, moldar og viðar sem geta borið með sér skaðvalda hættulega innlendri ræktun og íslenskri náttúru.

Annar eftirlitsskyldur útflutningur 2023

Útflutningsvottorð

Matvælastofnun gefur út heilbrigðisvottorð vegna afurða sem fluttar eru til þriðju ríkja, þ.e. dýraafurða og plantna. Stofnunin áritar auk þess vottorð vegna útflutnings gæludýra. Alls voru 5269 vottorð gefin út (eða árituð) árið 2023, sem er nokkur aukning frá árinu áður en þá var heildarfjöldi vottorða 4495.

Fjöldi vottorða vegna útflutnings afurða/dýra sem gefin voru út af inn- og útflutningsdeild 2023

Útflutningsvottorð 2023

Útflutningur hrossa

Á árinu voru 1589 hross flutt út. Það voru 273 stóðhestar, 616 geldingar og 700 hryssur. 

Fjöldi útfluttra hrossa á árunum 2003-2023

Útflutningur hrossa 2023

 Ábendingar og fyrirspurnir

Á árinu bárust MAST 1069 ábendingar og 2000 fyrirspurnir. Með því að velja box má sjá annars vegar skiptingu á milli ábendinga og fyrirspurna eftir málaflokkum og hins vegar dýravelferð eftir dýrategundum.