Vanmerktir ofnæmis- og óþolsvaldar í kjúklingasúpu
Matvælastofnun fékk ábendingu frá neytenda um vanmerkta súpur á markaði og matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur stöðvað sölu og innkallað frá neytendum eftirfarandi vöru:
Vörumerki: Maggi.
Vöruheiti:
Kjúklingasúpa með núðlum - 3 súpur í pakka
Ábyrgðaraðili;
framleiðandi, innflytjandi og/eða dreifingaraðili: Nestlé Gida Sanayli A.S., Tyrklandi. Innflytjandi er Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., Grjóthálsi 7-11, 110 Reykjavík.
Auðkenni/skýringartexti: Um er að ræða pakka (ytri umbúðir) með þremur bréfum (innri umbúðir) af þurrefni fyrir Maggi kjúklingasúpur með núðlum. Strikanúmer 2761010030019. Merkingum á ytri umbúðum vörunnar (kassa) ber ekki saman við merkingar á innri umbúðum hennar (þurrefnablöndur) en ekki kemur fram á ytri umbúðunum að varan innihaldi mjólk. Mjólk og mjólkurafurðir eru á lista yfir ofnæmis- og óþolsvalda. Samkvæmt matvælalöggjöfinni eiga ofnæmis- og óþolsvaldar að vera skýrt merktir í merkingum matvæla. Einnig eru aðrar athugasemdir gerðar við merkingar vörunnar.
Laga- /reglugerðarákvæði: Reglugerð nr. 503/2005 um merkingu matvæla, með síðari breytingum. Reglugerð nr. 410/2009 um merkingu næringargildis matvæla, með síðari breytingum. 8. og 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.
Áætluð dreifing innanlands: Verslanir Bónuss um land allt.
Tekið skal fram að ofangreindar athugasemdir gilda fyrir allar vörur sem Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. flytur inn og dreifir. Þar sem ofnæmis- og óþolsvaldur (mjólk) er ekki merktur á ytri umbúðum Maggi kjúklingasúpu með núðlum er um að ræða matvæli sem getur valdið neytendum heilsutjóni. Með vísun til framangreindra upplýsinga og 8. og 30. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, er Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. gert skylt að stöðva nú þegar dreifingu ofangreinds matvælis og innkalla það af markaði og skal vanmerkt vara m.t.t. ofnæmis- og óþolsvalda ekki vera í dreifingu eftir 14. júní 2012. Neytendur skulu upplýstir um málið með útgáfu fréttatilkynningar og skal samráð haft við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vegna útgáfu hennar.
Ítarefni
- Fréttatilkynning Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur
- Fréttatilkynning Ölgerðarinnar
- Listi yfir innkallanir