Fara í efni

Salmonella í fóður- og matvælakeðju

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


  Matvælastofnun hefur ákveðið að birta reglulega niðurstöður úr eftirliti stofnunarinnar með salmonellu í fóðurstöðvum, svínaeldi og svínaslátrun á heimasíðu stofnunarinnar.

Á árinu 2008 greindist salmonella í auknum mæli í sýnum í fóðurstöðvum og í svína- og alifuglaeldi við reglubundna vöktun Matvælastofnunar. Ekki hafði greinst salmonella í jafnmiklum mæli í svínaeldi frá árinu 2001 og í alifuglaeldi hafði ekki greinst salmonella síðan árið 2004.

Matvælastofnun, fóðurfyrirtæki, framleiðslubúin og sláturleyfishafar gripu til ýmissa ráðstafana gegn smitinu. 

Fóðurfyrirtækin taka stöðugt sýni bæði við löndun hráefna og í framleiðsluferli í verksmiðjunum.  Á árinu 2008 og það sem af er þessu ári hefur salmonella ekki greinst í fullunnu fóðri.  Hins vegar greindist salmonella nokkrum sinnum í rykskiljum eftir löndun hráefna og einu sinni í rykskilju í framleiðsluferli hjá einu fyrirtæki á tímabilinu frá mars til september á árinu 2008. Síðan þá hefur ekki greinst salmonella í sýnum, sem tekin eru af fóðurhráefnum og fóðri í innra eftirliti fóðurfyrirtækjanna.




Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni hafa þeir stofnar sem greinst hafa í fóðurfyrirtækjum, eldi og sláturhúsum ekki greinst í fólki hér á landi að undanförnu. Ennfremur er ekki um að ræða aukinn fjölda tilfella af salmonellu af innlendum uppruna í fólki nú síðustu vikurnar.

Matvælastofnun hefur eftirlit með salmonellu í alifuglaeldi og í sláturhúsum. Sýni eru tekin í hverjum eldishópi alifugla og þegar salmonella greinist í eldissýni er öllum hópnum fargað og eytt. Salmonella greindist fimm sinnum í kjúklingaeldi á árinu 2008 og í einu tilviki greindist salmonella við slátrun. Í alifuglaeldi er eingöngu notað  hitameðhöndlað fóður og því er minni hætta á fóðurbornu salmonellusmiti þar en í svínaeldi  þar sem notuð eru hráefni sem ekki hafa verið hitameðhöndluð. Í svínaeldi er sýru blandað í fóðrið til að minnka hættu á fóðurbornu salmonellusmiti. Annað búfé er eingöngu fóðrað á heyi og hitameðhöndluðum fóðurblöndum.

Eftirlit með salmonellu í svínrækt er með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er stöðugt fylgst með smiti inn á svínabúin með svokölluðu kjötsafaprófi, sem mælir mótefni gegn ákveðnum stofnum salmonellu í kjötsafa. Í öðru lagi er fylgst með hvaða salmonellu stofnar geti verið á ferðinni hverju sinni með því að rækta úr saursýnum a.m.k. einu sinni á ári frá hverju svínabúi. Í þriðja lagi er fylgst með salmonellumengun í svínasláturhúsum landsins með stroksýnum af svínaskrokkum í hvert sinn sem slátrað er.  

Svínabúunum er raðað í 3 flokka á grundvelli kjötsafastuðuls sem reiknaður er út einu sinni í mánuði fyrir hvert svínabú. Ef mörg kjötsafasýni eru jákvæð m.t.t. salmonellu hækkar stuðullinn og svínabúið getur fallið um flokk.

 


Á þessari mynd sést að öll svínabúin voru á árinu 2008 í flokki 1 þar til að eitt raðast í flokk 2 á tímabilinu vika 29 – vika (v) 41 og þrjú bú raðast í flokk 2 á tímabilinu v 33 – v 45 og v 37 – v 49. Á tímabilinu v 39 – v 51 og v 43 – v 03 raðast aftur eitt bú í flokk 2.

Þegar salmonella greinist í svínaræktinni og í sláturhúsum er sýnataka aukin næst þegar slátrað er frá viðkomandi búi og skerpt er á þrifum og hreinlæti við slátrunina.

Neytendum er bent á að þrátt fyrir öflugt og víðtækt eftirlit Matvælastofnunar í alifugla- og svínaeldi er ekki unnt að koma algerlega í veg fyrir að mengaðar afurðir geti farið á markað. Neytendur þurfa því ætíð að líta svo á að hrátt kjöt geti verið mengað af örverum. Ávallt ber því að meðhöndla hrátt kjöt m.t.t. þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit úr hráu kjöti í matvæli sem eru tilbúin til neyslu og huga að því að kjötið sé nægilega vel eldað/hitað.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?