Salmonella enteritidis greinist í fyrsta skipti
Innkallanir -
23.09.2011
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Staðfest hefur verið Salmonella Enteritidis úr jákvæðu stoksýni sem tekið var af svínaskrokki. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund salmonellu greinist í búfé hérlendis. Salmonella Enteritidis getur valdið alvarlegum matarsýkingum í fólki. Litlar líkur eru þó á, að S. Enteritidis berist í fólk með svínakjöti enda fylgist Matvælastofnun með salmonellumengun í svínarækt og við svínaslátrun með þrenns konar sýnatökum: |
- Kjötsafasýnum þar sem fylgst er með mótefnum í kjötsafa gegn salmonellu allt árið.
- Stroksýnum af skrokkum þar sem leitað er að salmonellu á yfirborði svínaskrokka við hverja slátrun.
- Saursýnum þar sem leitað er að salmonellu einu sinni á ári á svínabúum í fyrsta flokki.
Þetta eftirlitskerfi er sett upp með það að markmiði að vernda neytendur gegn hugsanlegum matarsýkingum sem borist gætu með svínakjöti. Hið mengaða kjöt sem hér um ræðir fór í hitameðhöndlun áður en það fór á markað og stafar neytendum ekki hætta af neyslu þess.