Fara í efni

Úttekt ESA á eftirliti með vottaðri lífrænni framleiðslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu með niðurstöðum eftirlitsheimsóknar til Íslands 25. nóvember til 2. desember 2019. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með vottaðri lífrænni framleiðslu og merkingum vottaðra lífrænna vara á Íslandi væri framkvæmt í samræmi við löggjöf EES. Meginniðurstöður úttektarinnar eru að Ísland hefur sett upp eftirlitskerfi sem almennt uppfyllir kröfur löggjafarinnar sem var innleidd á Íslandi í maí 2017 en að bæta þurfi ákveðin atriði í eftirliti.

Með innleiðingu Evrópulöggjafar var Matvælastofnun tilnefnd sem lögbært yfirvald lífrænnar framleiðslu 1. janúar 2019.  Nýja löggjöfin veitti heimild til framsals eftirlits. Matvælastofnun auglýsti eftir umsóknum og barst ein umsókn. Eftirlitið með vottaðri lífrænni framleiðslu var framselt til vottunarstofunnar Túns í febrúar 2019, sem hafði annast eftirlitið frá árinu 1995. 

Í niðurstöðum ESA segir að þessar kerfisbreytingar skapi góðan grundvöll til að bæta eftirlit með lífrænni vottun.  Þörf sé á aðgerðum á ákveðnum sviðum og á yfirumsjónarhlutverk Matvælastofnunar að tryggja að eftirlit vottunarstofu sé skilvirkt og með getu til þess greina ósamræmi við löggjöf.  

ESA bendir á að bæta þurfi eftirlit vottunarstofu á ákveðnum sviðum og nefnir ítarlegri þjálfun starfsmanna í eftirliti sem nái til allra sviða löggjafarinnar. ESA telur að viðunandi sýnatökuáætlun og aukin áhersla á óboðað eftirlit og eftirfylgni myndi styrkja eftirlitið og trúverðugleika þess.

Bent var á þörfina á virkum úrræðum við frávikum í eftirliti til að tryggja skilvirkni eftirlits með framleiðendum. Þá þarf Ísland að koma á fót gagnabanka fyrir vottaða lífræna sáðvöru.

Skýrsla ESA veitir mikilvæga innsýn í eftirlit undir nýrri löggjöf EES sem Matvælastofnun hefur nú verið falið að hafa yfirumsjón með. Matvælastofnun hefur farið yfir athugasemdir ESA með vottunarstofunni Tún og lagt fram tímasetta úrbótaáætlun sem fylgir skýrslunni. Úrbótum er lokið að hluta.


Getum við bætt efni síðunnar?