Nýtt tilfelli af brúna hundamítlinum
Nýtt tilfelli af brúna hundamítlinum hefur greinst á hundi á höfuðborgarsvæðinu. Mítillinn er ekki talinn landlægur á Íslandi og vinnur Matvælastofnun áfram að því að hindra að þessi vágestur nái fótfestu hér á landi. Stofnunin vill benda hundaeigendum á að vera vel vakandi fyrir þessari óværu og hafa strax samband við dýralækni ef þeir verða varir við mítla á dýrum sínum eða annars staðar.
Brúni hundamítillinn hefur aðeins greinst sex sinnum á Íslandi fram að þessu. Hann greindist síðast í janúar á þessu ári, en þá hafði hann ekki greinst hér á landi frá árinu 2010. Tekist hefur að uppræta hann í hvert sinn.
Brúni hundamítillinn (Rhipicephalus sanguineus) nærist helst á hundum en getur lagst á önnur spendýr, svo sem nagdýr. Hann er eini mítillinn sem getur farið í gegnum allan lífsferilinn innanhúss og getur því fundist allt árið um kring. Um 5% mítlana eru til staðar á hundinum, en um 95% eru í umhverfinu. Mítillinn getur lifað í 3-5 mánuði á hverju þroskastigi í upphituðu húsi án þess að fá næringu.
Erlendis er þekkt að brúni hundamítillinn geti borið smitefnin Ehrlichia canis og Babesia canis sem valda sjúkdómum í hundum en þessi smitefni hafa ekki fundist hér á landi. Jafnframt er vitað að þessi mítill geti borið bakteríuna Rickettsia conorii, sem getur valdið sjúkdómi í fólki og er landlæg í löndum við Miðjarðarhafið (Mediterranean spotted fever) en hefur ekki fundist hér.
Meindýr eins og brúni hundamítillinn geta borist með fólki og farangri þess, sér í lagi því sem hefur verið í snertingu við dýr eða nálægt dýrum. Matvælastofnun vekur athygli á mikilvægi þess að gæta smitvarna og reyna eins og kostur er að bera ekki smitefni með sér til landsins, t.d. með því að þvo allan fatnað og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, hreinsa öll óhreinindi af skóm, þvo þá, þurrka og sótthreinsa.
Mikilvægt er að allir dýralæknar séu vel á varðbergi gagnvart þessum mítlum og sendi alla mítla sem finnast til greiningar á Keldum. Bent er á að Keldur taka við öllum þeim mítlum sem finnast án kostnaðar. Ef hundamítill greinist þarf að tilkynna það tafarlaust til Matvælastofnunar: mast@mast.is.
Matvælastofnun mun fyrirskipa einangrun á dýrum sem hafa greinst gagnvart umgangi við önnur dýr, þangað til viðurkennd lyfjameðhöndlun er hafin og orðin virk. Samhliða meðhöndlun þarf að ryksuga daglega allt á heimilinu í hólf og gólf, sérstaklega staði sem mítlarnir geta leynst á s.s. í sprungum, undir listum, þröskuldum o.s.frv. Bæli hundsins, teppi, fatnað o.s.frv. þarf að þvo. Frysting getur verið ráð í sumum tilvikum ef ekki er hægt að þvo. Ef mikill fjöldi mítla er í húsnæðinu gæti þurft að leita til meindýraeyðis.
Ítarefni
- Viðtal við dýralækni gæludýra og dýravelferðar hjá Matvælastofnun á Bylgjunni
- Brúni hundamítillinn greinist á ný – frétt Matvælastofnunar frá 20.01.17
- Blóðsjúgandi hundamítlar berast til Íslands
- Tick species (Ixodida) identified in Iceland
Frétt uppfærð 20.06.17 kl. 9:19