Lambaþon - aukin verðmæti í virðiskeðju sauðfjár
Hefur þú frábæra hugmynd til dæmis um nýja vöru, markaðssetningu, þjónustu, hönnun, dreifingu, beitarstjórnun, dýravelferð, sjálfbærni, nýtingu hliðarafurða, búvörusamninga, lagaumhverfi, umbyltingar eða annað?
Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landgræðslan, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, Matvælastofnun, Landssamtök sauðfjárbænda, Samtök ungra bænda, Háskóli Íslands og Icelandic Lamb standa fyrir lambaþoni 9. - 10. nóvember nk.
Lambaþon er keppni á milli 4-8 manna liða um bestu hugmyndina til að auka verðmætasköpun í virðiskeðju sauðfjár á Íslandi. Einstaklingar geta líka skráð sig og verður þeim parað saman með öðrum einstaklingum við upphaf Lambaþonsins.
Verðlaun fyrir bestu hugmyndina að mati dómnefndar eru kr. 200 þúsund. Hugmyndir má setja fram á hvaða formi sem er og verða þær meðal annars metnar út frá því hve auðvelt er að miðla þeim til bænda og almennings á Íslandi. Heimilt er að nota hvaða hjálparmiðla sem er við miðlun tillagna.
Keppnin hefst formlega föstudaginn 9. nóvember kl.10 á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Skila þarf hugmyndum kl. 10 daginn eftir. Kynningar á efstu þremur hugmyndunum og verðlaunaafhending fara fram hjá Matís í Reykjavík kl. 11.15 sama dag. Mögulegt verður að kynna hugmyndir í gegnum vefútsendingu, ef keppendur kjósa það. Hugmyndir verða metnar af dómnefnd sem í sitja fimm einstaklingar og mun dómnefndin meta hugmyndirnar samkvæmt eftirfarandi:
- Hversu mikið eykst verðmætasköpun bónda sem hrindir hugmyndinni í framkvæmd? Hversu mikið ávinnst fyrir neytendur?
- Felur hugmyndin í sér uppbyggjandi tillögur um starfsumhverfi bænda?
- Felur hugmyndin í sér jákvæð umhverfisáhrif?
- Felur hugmyndin í sér þróun nýrra vara eða þjónustu? Hugmyndir um markaðssetningu!
- Slær hjarta liðsins með hugmyndinni? Efnafræðin, orkan og framsetningin!
Keppendur hafa aðgang að húsakynnum Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík og húsakynnum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, á meðan keppninni stendur.
Nánari upplýsingar má fá með því að senda póst á netfangið lambathon@matis.is. Síðasti dagur til skráningar er fimmtudagurinn 8. nóvember kl. 16:00 og skal senda skráningar á sama netfang.