Innflutningur notaðra landbúnaðaráhalda kærður til lögreglu
Matvælastofnun hefur kært til lögreglu meint brot á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Samkvæmt lögunum er óheimilt að flytja til Íslands notuð landbúnaðartæki sem hafa verið í snertingu við dýr eða dýraafurðir nema með leyfi Matvælastofnunar. Verður þá að vera sannað að ekki berist smitefni með slíkum innflutningi er valdi dýrasjúkdómum. Stofnunin getur heimilað slíkan innflutning ef fullnægjandi sótthreinsun hefur átt sér stað.
Í þessu tilviki voru flutt inn notuð landbúnaðaráhöld frá Danmörku sem voru afhent kaupanda án tollafgreiðslu. Matvælastofnun frétti því ekki af innflutningnum fyrr en upp komst um málið hjá embætti tollstjóra í árslok 2017, einu ári eftir innflutninginn.
Matvælastofnun lítur innflutning sem þennan alvarlegum augum. Árið 2017 voru fluttar til Íslands 86 notaðar landbúnaðarvélar. Yfirleitt var tilkynnt um innflutninginn fyrirfram eins og vera ber en í öllum tilvikum fór fram úttekt og í flestum þeirra þurfti viðbótarþrif og sótthreinsun.