Fjárfestingastuðningur í sauðfjárrækt vegna framkvæmda 2018
Matvælastofnun hefur lokið yfirferð umsókna um fjárfestingastuðning í sauðfjárrækt vegna framkvæmda á árinu 2018. Alls bárust 67 umsóknir, en sótt var um rafrænt á þjónustugátt Matvælastofnunar. Af þeim voru 65 umsóknir samþykktar, en 2 umsóknum var hafnað. Heildarkostnaður við fjárfestingar sauðfjárbænda vegna framkvæmda á árinu 2018 er samkvæmt samþykktum umsóknum um 448 milljónir króna. Matvælastofnun hefur til úthlutunar samkvæmt fjárlögum ársins 49.559.633 kr. Styrkhlutfall reiknast rúmlega 11% af heildarfjárfestingakostnaði, en skerða þurfti framlög hlutfallslega á allar samþykktar umsóknir í samræmi við 27. gr. reglugerðarinnar þar sem fjármunir hrökkva ekki til að greiða hámarksstyrkhlutfall sem er 20%. Í ár reiknast hæsti styrkur 4.955.963 kr. og lægsti styrkur 58.089 kr.
Um fjárfestingastuðning í sauðfjárrækt er fjallað í V. kafla reglugerðar um stuðning í sauðfjárrækt. Fjárfestingastuðningur er veittur vegna framkvæmda sem stuðla að bættum aðbúnaði sauðfjár og hagkvæmari búskaparháttum. Stuðningurinn er veittur vegna nýframkvæmda og/eða endurbóta á eldri byggingum og er að koma fyrst til úthlutunar á þessu ári eftir innleiðingu nýrra búvörusamninga.