Kattahvítblæði
Kattahvítblæði (e. Feline leukemia virus) er meðal algengustu smitsjúkdóma í köttum og algengi er frá 3-4% skv. nýlegum rannsóknum í Bandaríkjunum og Evrópu. Þó er algengi mismunandi eftir svæðum, t.d. greinast fleiri kettir með kattahvítblæði á Spáni, allt að 15% heilbrigðra katta. Sjúkdómurinn felur í sér blóðleysi og ónæmisbælingu og eykur þar með líkur á krabbameini og leiðir til dauða. Bóluefni gegn FeLV var víða tekið í notkun frá því fyrir um 25 árum síðan og hefur það haft mikil áhrif á tíðni sjúkdómsins. Óljóst er hvort kattahvítblæði hafi komið upp á Íslandi.
Orsök: Gammaretrovirus / Feline leukemia virus
Meðgöngutími: Langur tími getur liðið frá því köttur smitast og þar til hann sýnir einkenni, allt frá nokkrum vikum upp í nokkur ár.
Einkenni: Helstu einkenni eru blóðleysi, krabbamein (eitilfrumukrabbamein eða hvítblæði), ónæmisbæling með tilheyrandi tækifærissýkingum, taugakvillar, bólgur í meltingarvegi og í munni. Sjúkdómurinn er oftast banvænn og að meðaltali lifa kettir í 2,4 ár eftir greiningu. Kettlingar veikjast jafnan hraðar en fullorðnir kettir. Sumir fullorðnir kettir virðast mynda aldurstengt þol og komast þannig yfir sýkinguna.
Smitleið: Veiran berst með munnvatni og þvagi og smitast á milli katta sem eru á sama heimili og deila matardöllum, sandkössum o.fl. en ekki síst við slagsmál eða önnur náin samskipti. Smitberar geta verið heilbrigðir í mörg ár.
Útbreiðsla: Kattahvítblæði finnst um allan heim. Veiran greindist í tveimur köttum í lítilli rannsókn á Íslandi árið 2001 en ekki er vitað um fleiri tilfelli á Íslandi.
Greining: Veirugreining (ELISA/IFA) eða PCR úr blóðsýnum eða beinmerg. Á markaði eru sk. snap test fyrir bæði FeLV og FIV sem henta ágætlega þegar skimað er fyrir sjúkdómunum.
Meðhöndlun: Engin lækning finnst við kattahvítblæði. Margir kettir geta lifað ágætu lífi í nokkur ár eftir að þeir smitast. Mikilvægt er að smituðum köttum sé haldið innandyra bæði til þess að minnka líkur á að þeir verði útsettir fyrir öðrum smitsjúkdómum en einnig til að draga úr dreifingu veirunnar. Meðhöndla skal tækifærissýkingar og önnur veikindi sem koma upp. Ónæmismeðferðir hafa reynst vel en eru ekki mjög aðgengilegar enn sem komið er.