Hundaæði
Hundaæði (e. Rabies) er banvænn sjúkdómur sem borist getur í margar tegundir spendýra og þar á meðal menn. Hundaæði er sá sjúkdómur sem vegur þyngst hvað varðar mótvægisaðgerðir, þ.e. skilyrði vegna flutnings hunda og katta á milli landa.
Orsök: Rhabdoviridae / lyssavirus
Meðgöngutími: Nokkrir dagar og allt að 6 mánuðir (jafnvel lengri, en skilgreining OIE er 6 mán.) Rannsóknir hafa sýnt að meðgöngutími hjá hundum og köttum er á bilinu 9-60 dagar. Bitstaður og veirumagn hefur hér mest að segja. Ef bit er nálægt höfði koma einkenni fram fyrr en ef bitið er á útlim.
Einkenni: Sjúkdómurinn er banvænn og einkenni eru frá taugakerfi; heilahimnu-, heila- og mænubólga. Dæmi um einkenni eru vatnsfælni, aukin munnvatnsframleiðsla, máttminnkun eða lömun, hegðunarbreytingar, hár hiti og að lokum öndunarstopp og dauði, að jafnaði 10-12 dögum eftir að einkenni koma fram.
Smitleið: Bit af sýktu dýri, einnig getur smit borist með líkamsvessum í brotna húð, t.d. þegar sýkt dýr sleikja sár/slímhúðir. Smitdreifing hjá sýktum dýrum getur hafist um 15 dögum áður en sjúkdómseinkenni þeirra koma fram.
Útbreiðsla: Hundaæði er útbreiddur sjúkdómur og finnst í öllum heimsálfum nema í Ástralíu og á Suðurskautslandinu. Árlega láta 55.000-70.000 manns lífið af völdum hundaæðis, aðallega í Asíu og Afríku. Hundar eru valdir að 99% tilfella af hundaæði í fólki. Hundaæðistilfelli í Evrópu eru ýmist vegna smits frá villtu dýri á svæðinu (villtir/heimilislausir hundar) eða vegna innflutnings á smituðu dýri frá svæði þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Í löndum þar sem hundaæði er landlægt er algengi mismunandi og veltur það fyrst og fremst á hversu vel tekst að fylgja eftir áætlunum um útrýmingu sjúkdómsins. Í löndum og á svæðum þar sem hundaæði finnst eingöngu í villtum dýrum (Bandaríkjunum, Kanada og V-Evrópu) hafa skipulagðar bólusetningar gæludýra dregið úr tilfellum af hundaæði í þéttbýli. í Evrópusambandinu hefur áætlunum um útrýmingu hundaæðis dregið verulega úr fjölda hundaæðistilfella á undanförnum aratugum. Frá 2004-2016 kom upp 21 hundaæðistilfelli (í dýrum) í kjölfar innflutnings til ESB. Gott aðgengi að hundaæðisbóluefni hefur auðveldað alþjóðlega flutninga með dýr frá löndum þar sem hundaæði finnst. Bólusetningar skila oftast tilætluðum árangri en til þess að ganga úr skugga um árangur bólusetningar er mótefnamæling nauðsynleg.
Greining: veirugreining, mótefnamæling. Mótefni vegna smits koma fram eftir að klínísk einkenni koma fram og mælast þá töluvert hærri en mótefni eftir bólusetningu.
Meðhöndlun: Endurtekin bólusetning eftir smit og áður en einkenni koma fram hefur gefið mjög góðan árangur. Þegar einkenni eru komin fram er finnst engin meðhöndlun. Sjúklingurinn fær stuðningsmeðferð en sjúkdómurinn er ávallt banvænn.