Fara í efni

Við leitum að öflugum sérfræðingi til starfa!

Fagsviðsstjóri sérmarkaða í inn- og útflutningsdeild

Viltu taka þátt í að koma íslenskum afurðum á markað í útlöndum?

Matvælastofnun óskar eftir að ráða öflugan og drífandi einstakling í starf sérfræðings hjá inn- og útflutningsdeild sem er með aðsetur í Reykjavík. Um er að ræða 100% starf og æskilegt að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst.

Matvælastofnun gefur ár hvert út um 5000 heilbrigðisvottorð vegna útflutnings afurða (fyrst og fremst fisk- og kjötafurða). Þetta er nauðsynlegur liður í því að hægt sé að markaðssetja þessar íslensku vörur í löndum utan EES. Forsenda vottorðaútgáfu er lögbundið eftirlit sem stofnunin hefur með framleiðandanum auk þess sem innflutningsríkin gera gjarnan sérkröfur sem stofnunin skal votta að séu uppfylltar. Inn- og útflutningsdeild hefur umsjón með útgáfu vottorða. Í deildinni starfa 13 sérfræðingar. Mikil áhersla er lögð teymisvinnu og umbætur í verklagi.

Matvælastofnun er nútímaleg og framsækin þjónustustofnun sem gætir hagsmuna neytenda og málleysingja. Megináhersla er lögð á starfsánægju og samskipti og að stofnunin sé öflugt og lifandi þekkingarsamfélag.

Við stöndum vörð um heilsu manna, dýra og plantna og aukum þannig velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar. Gildi Matvælastofnunar eru FAGMENNSKA, GAGNSÆI OG TRAUST.

Helstu verkefni og ábyrgð

Útgáfa heilbrigðisvottorða vegna útflutnings afurða og þátttaka í vinnu vegna aðgengis íslenskra afurða að erlendum mörkuðum. Starfið felur í sér mikil samskipti við hagaðila, bæði inn- og útflytjendur sem og stofnanir á Íslandi og erlendis

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Háskólamenntun á sviði dýralækninga, fiskifræði, matvælafræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi
  • Reynsla af matvælavinnslu, sjávarútvegi eða annarri skyldri starfsemi er æskileg
  • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er kostur
  • Nákvæmni, frumkvæði, fagleg vinnubrögð og sjálfstæði í starfi
  • Samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Hæfni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku er skilyrði
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Ökuréttindi

Nánari upplýsingar um starfið veitir Hrund Hólm deildarstjóri inn- og útflutningsdeildar í gegnum tölvupóst (hrund.holm@mast.is) eða í síma 530 4800. Umsókn skal fylgja starfsferilsskrá, afrit af prófskírteini og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir því hvernig viðkomandi uppfyllir hæfnikröfur. Sótt er um starfið á Starfatorg.is.

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar 2025. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir. Vakin er athygli á því að umsóknir gilda í 6 mánuði nema umsækjandi ákveði annað. Launakjör eru samkvæmt viðeigandi kjarasamningi.


Getum við bætt efni síðunnar?