Leifar af fipronil í matvælum
Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar um að Ora hafi innkallað vörur vegna þess að í þær var notað hráefni (eggjarauðuduft) sem reyndist innihalda fipronil yfir hámarksgildi. Magn hráefnisins í vörunum er mjög lítið og vörurnar því ekki heilsuspillandi fyrir neytendur. Hins vegar er óleyfilegt að nota hráefnið í samsett matvæli og þess vegna innkallar fyrirtækið vörurnar.
Eftirfarandi vörur frá Ora eru innkallaðar:
Vara Lotunúmer FramleiðsludagurLúxus Bernaise L2B227 14.08.2017
Bernais sósa Bónus L2B227 15.08.2017
Graflaxsósa L2B233 21.08.2017
HM Plokkfiskur 23/08/17 23.08.2017
Fipronil er notað bæði sem sníklalyf á gæludýr og sem skordýraeitur í og við byggingar og á einstaka káltegundir. Ekki er leyfilegt að nota lyfið til að meðhöndla dýr sem alin eru til manneldis. Leifar af fipronil geta fundist í eggjum/eggjaafurðum í mjög litlu magni vegna þess að ekki er hægt að útiloka að það berist í þau úr umhverfi. Hámarksgildi fyrir leyfilegt magn leifa eru sett í reglugerð um varnarefnaleifar í matvælum og fóðri nr. 672/2008 (EB 396/2005).
Fannst í eggjarauðudufti
Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar í gegnum evrópska viðvörunarkerfið (RASFF) um ólöglega notkun á fipronil og að efnið hafi fundist yfir hámarksgildum í eggjum og eggjadufti. Í kjölfarið hóf stofnunin skoðun á eggjavörum sem fluttar eru til landsins frá Evrópu og jafnframt voru tekin sýni til greiningar. Stofnunin hefur einnig haft samráð og samstarf við heilbrigðiseftirlit á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með markaðseftirlit með matvælum.
Matvælastofnun tók tvö sýni, úr sitt hvorri lotunni, af eggjarauðudufti sem kom landsins frá Hollandi, en varan reyndist framleidd á Ítalíu. Í öðru sýninu mældist fipronil rétt yfir hámarksgildi. Í hinu sýninu greindist fipronil einnig, en vel undir hámarksgildi. Varan sem flytja átti inn er í vörslu Matvælastofnunar og hefur innflytjandinn, Íslensk Ameríska, staðfest að hann muni endursenda báðar loturnar. Sama lota og sú sem nú greindist yfir mörkum kom til landsins fyrr í sumar og var þá notuð í þær vörur sem nú er verið að innkalla.
Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga munu áfram leggja áherslu á að skoða eggjaafurðir sem fluttar eru til landsins, m.a. með frekari sýnatökum. Beinir stofnunin því einnig til fyrirtækja sem flytja eggjavörur frá Evrópu að fá rannsóknarvottorð sem sýnir fram á að magn fipronils sé innan marka í viðkomandi vöru áður en hún er flutt til landsins.
Matvælastofnun vill að lokum ítreka skyldur fyrirtækja um að tryggja öryggi afurða á markaði og vill um leið koma á framfæri þakklæti til innflytjanda eggjarauðanna og framleiðanda hluteigandi afurða vegna skjótra viðbragða þeirra þegar niðurstöður greininga sýna lágu fyrir.
Ítarefni