Fara í efni

Matvælastofnun gerir þjónustusamning við Matís

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 14. maí undirritaði Matvælastofnun þjónustusamning við Matís um öryggismælingar á sviði varnarefna.

 

Varnarefni eru notuð við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvöru til að koma í veg fyrir eða draga úr skaða af völdum sveppa, illgresis, skordýra og annarra meindýra. Til varnarefna teljast plöntulyf (skordýra- og sveppaeitur), illgresiseyðar og stýriefni. Stýriefni eru notuð til að hafa áhrif á vöxt og viðgang ákveðinna tegunda matvæla, t.d. til að draga úr spírun kartaflna og auka þar með geymsluþol.

 

Í nýrri matvælalöggjöf er víðtæk krafa um mælingar á varnarefnum. Eftirlit með varnarefnum er með þeim hætti að Matvælastofnun útbýr sýnatökuáætlun fyrir árið sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fer eftir við sýnatökur hjá innflytjendum og dreifingaraðilum. Sýnin eru  send til greiningar hjá Matís. Samkvæmt þjónustusamningnum mun Matís skima fyrir leifum 61 mismunandi varnarefna og senda Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur niðurstöður um leið og þær liggja fyrir svo hægt sé að bregðast strax við ef efni greinast yfir hámarksgildum í sýnunum.

 

 

Óheimilt er að framleiða eða dreifa matvælum sem innihalda varnarefni umfram leyfileg hámarksgildi skv. reglugerð um varnarefnaleifar sem m.a. er byggð á tilskipunum ESB og liggur ábyrgðin hjá framleiðendum, dreifendum og seljendum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?