Innflutningur plantna og plöntuafurða – Leiðbeiningar
Innflutningsreglur plantna og plöntuafurða
Hér á landi er í gildi reglugerð (nr. 189/1990) um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum þar sem finna má kröfur og reglur sem í gildi eru vegna innflutnings á plöntum og plöntuafurðum. Þar kemur m.a. fram að innflutningur er háður skilyrðum og eingöngu er heimilt að flytja inn plöntur og plöntuafurðir ef þeim fylgir opinbert heilbrigðisvottorð. Á það við um allar innfluttar plöntur eða plöntuhluta sem rækta á áfram eins og græðlinga, blómlauka, stöngul- og rótarhnýði, og kartöflur, afskorin blóm og greinar, rótarlaus barrtré og barrtrjágreinar, trjávið með berki og mold. Slíkt vottorð staðfestir að þær séu lausar við ákveðna skaðvalda sem ekki má flytja til landsins. Lista yfir þá er hægt að finna í viðauka I í reglugerðinni. Auk þess þarf leyfi frá Matvælastofnun fyrir hvern innflutning á sendingum sem innihalda plöntur eða plöntuafurðir. Reglugerðin nær ekki yfir innflutning á fræjum né plöntur ætlaðar í fiskabúr.
Má flytja inn allar tegundir plantna?
Nei - það ber að athuga að ekki er frjálst að flytja inn allar tegundir plantna og er í gildi bann við innflutningi á ýmsum ættkvíslum trjátegunda og ýmsum grænmetisplöntum. Óheimilt er að flytja inn birki, ösp, víði, álm, furu, greni, lerki og einnig önnur barrtré frá löndum utan Evrópu. Innflutningsbann við þessum trjátegundum á einnig við um trjávið með berki. Ekki má flytja inn plöntur sem safnað hefur verið á víðavangi eða vatnaplöntuna Elodea. Óheimilt að flytja inn plöntur með rót af gúrku, tómati, papriku og salati.
Má flytja inn jarðveg?
Varðandi innflutning á jarðvegi, er almenna reglan sú að óheimilt er að flytja inn jarðveg. Þó er undanskilin tvennskonar mold.
Annarsvegar er undanskilin mómosamold til ræktunar sem að meginhluta samanstendur af mómosa (Sphagnum). Sú mold þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Mómosamoldin þarf að vera tekin úr mógröfum þar sem ekki hefur verið ræktað áður, hún má ekki innihalda safnhaugamold, óunnin eða kurlaðan trjábörk né húsdýraáburð. Heilbrigðisvottorð þarf að fylgja moldinni við innflutning. Takmörkuð hætta er á að sjúkdómar og meindýr fylgi þessari tegund af ræktunarmold.
Hinsvegar er undanskilin sú mold sem fylgir rótum plantna. Í þeim tilfellum nær heilbrigðisvottorðið sem fylgir plöntunum einnig yfir þá mold sem fylgir með. Vakin er athygli á því að ef plönturnar koma frá löndum þar sem nýsjálenski flatormurinn er útbreiddur þurfa plönturnar að vera alveg lausar við mold, nema að sérstök yfirlýsing sé á heilbrigðisvottorði um að plönturnar komi frá svæði þar sem flatormurinn finnst ekki.
Hvað mega ferðamenn taka með sér af plöntum?
Undanþága frá innflutningsreglum er til staðar fyrir ferðamenn og póstsendingar á milli landa. Ferðamönnum er heimilt að taka með sér eftirfarandi plöntur án heilbrigðisvottorðs, það sama gildir um póstsendingar:
- Vönd með afskornum blómum og greinum (allt að 25 plöntur).
- Blómlauka, rótar- og stöngulhnýði frá Evrópu í órofnum verslunarumbúðum (allt að 2 kg).
- Einstaka pottaplöntur (inniplöntur) frá Evrópu (3 stk.)
- Auk þess er við búferlaflutninga frá Evrópulandi heimilt að taka með sér pottaplöntur (inniplöntur) sem tilheyra venjulegri búslóð (allt að 30 stk.).
Undanþága þessi gildir ekki um villtar plöntur sem týndar eru á víðavangi, trjáplöntur (með og án rótar), dvergtré (bonsai) og kartöflur. Matvælastofnun hvetur eindregið til þess að fólk fari eftir þessum reglum og taki ekki með sér plöntur eða plöntuafurðir umfram þessa undanþágu. Aukin áhætta fylgir því að taka með til landsins plöntur sem ekki hafa verið undir eftirliti. Það er í hag allra ræktenda að lágmarka hættuna á að nýir skaðvaldar berist til landsins.
Almennt um innflutning plantna
Heilbrigðisvottorð sem fylgja plöntum og plöntuafurðum til landsins, segja eingöngu til um að ákveðnir skaðvaldar séu ekki að finna í plöntunum eða plöntuafurðunum en tryggir ekki að varan sé laus við allar lífverur. Ýmsar lífverur geta fylgt með vörunum en þær eru þó ekki allar taldar skaðlegar. Hinsvegar má sérstaklega líta til lífvera sem eru almennt útbreidd erlendis í ræktunarlöndunum og ef til vill ekki talin sérstaklega varasamar þar, en gætu valdið skaða eða tjóni í ræktun og á gróðri hér á landi.
Þrátt fyrir strangar innflutningsreglur hafa skaðlegar lífverur borist til landsins. Dæmi má nefna að þó það sé í gildi bann við innflutningi á ákveðnum ættkvíslum trjátegunda, þá hafa nýlega borist til landsins t.d. ryðsveppir á víði og ösp og asparglytta. Í gildi er bann við innflutningi á helstu hýsiltegundum þessara skaðvalda, víði og ösp. Enn fremur má nefna birkikembuna sem er nýlegur landnemi hér og hefur verið áberandi í ár, en einnig er í gildi bann við innflutningi á birkiplöntum. Ekki er hægt að útiloka að asparglytta eða birkikemba hafi borist hingað sem laumufarþegar með öðrum plöntum.
Ekki má heldur gleyma að aðstæður hér á landi hafa breyst á síðastliðnum árum, samgöngur milli landa hafa aukist, veðurfar hefur breyst og ræktun plantna er að verða fjölbreyttari sem getur stuðlað að því að fleiri skaðvaldar eigi meiri möguleika á að setjast hér að. Einnig er þarft að hafa í huga að ýmsir skaðvaldar geta borist með öðrum leiðum heldur en með plöntum og plöntuafurðum, t.d. með vindi og fuglum, með öðrum varningi, gámaflutningum og fólki. Erfitt getur reynst að útiloka alveg tilkomu nýrra lífvera til landsins, en hægt er að takmarka áhættuna með ákveðnum innflutningsreglum.
Nú stendur yfir endurskoðun á reglugerð um innflutning og útflutning plantna og plöntuafurða á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. En Ísland hefur skuldbundið sig með aðild að alþjóðasamningum um plöntuvernd að beita ekki reglum um plöntuheilbrigði nema að þær séu tæknilega réttlætanlegar og rökstuddar. Matvælastofnun sér um að lögum og reglugerðum um plöntuheilbrigði sé framfylgt.