Innflutningur eldhúsáhalda úr plasti frá Kína
Innan skamms mun taka gildi hér á landi reglugerð Evrópusambandsins nr. 284/2011 um sérstakt innflutningseftirlit með eldhúsáhöldum úr melamín eða fjölamíð plasti sem koma frá Kína eða Hong Kong. Með „eldhúsáhöld úr melamín eða fjölamíð plasti“ er átt við alla hluti, sem eru að öllu leiti eða að hluta, úr viðkomandi plastefnum og er ætlað að komast í snertingu við matvæli.
Ástæða þessara hertu reglna er að algengt er að eldhúsáhöld úr melamíni og fjölamíðum frá Kína og Hong Kong losi frá sér of mikið magn af óæskilegum efnum (eingreindum arómatískum amíðum eða formaldehýði) í matvæli og er reglugerðinni ætlað að koma í veg fyrir að slíkar vörur komist á markað.
Þegar reglurnar taka gildi hérlendis verður haft eftirlit með öllum sendingum sem koma frá Kína eða Hong Kong, eða eiga uppruna sinn þar og innihalda eldhúsáhöld úr viðkomandi plastefnum. Innflytjendur munu þurfa að láta viðkomandi eftirlitsaðila vita um komu sendinga sem innihalda umræddar vörur ekki seinna en 2 virkum dögum áður en sending kemur til landsins og skal innihald sendingar ekki fara á markað fyrr en eftir að eftirlit hefur farið fram. Með hverri sendingu þurfa að fylgja skjöl með yfirlýsingu um að magn viðkomandi óæskilegra efna sé ekki yfir settum hámörkum sem og rannsóknarniðurstöður sem sýna fram á það. Framsetning yfirlýsingar skal vera á sérstakan hátt þ.e. samkvæmt því sem sett er fram í viðauka við reglugerðina. Eftirlitið felur í sér skoðun á skjölum og rannsóknarniðurstöðum fyrir viðkomandi vörur sem og skoðun og rannsóknir á sýnum úr 10 % sendinga.