Fara í efni

Þalöt yfir mörkum í ferðabolla frá IKEA

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við notkun á Troligvis ferðabollum merktir Made in India sem IKEA selur. Þalöt (mýkingarefni fyrir plast) mældust yfir leyfilegum hámarksmörkum í bollunum. 

Matvælastofnun fékk tilkynningu um bollana í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður. Þá var IKEA búið að innkalla vöruna.

Innköllun á einungis við þá Troligvis bolla sem merktir eru made in India:

  • Vörumerki: Troligvis
  • Vöruheiti: Ferðabolli
  • Innflytjandi: IKEA Ísland

Ferðabollar IKEA

Kaupendum sem hafa keypt vöruna er bent á að skila henni til verslunarinnar gegn endurgreiðslu.

Um þalöt

Til að mýkja PVC plast er sett í það mýkingarefni. Sum þessara mýkingarefna, svokölluð þalöt, eru talin skaðleg heilsu manna. Hætta skapast þegar þalötin leka úr PVC plasti en það getur gerst þegar hlutur snertir heit, fiturík matvæli.

Ljóst er að ekki er hægt að setja öll þalötin undir sama hatt og eru sum þeirra skaðlegri en önnur. Ekki er talin stafa bráð hætta af efnunum heldur er hugsanlega um að ræða áhrif sem gætu komið fram við notkun í lengri tíma. Þalöt voru bönnuð í leikföngum fyrir börn yngri en 14 ára árið 2003 á Íslandi.

Þalötin sem greindust í bollunum eru af tegundinni DBP.

Í reglugerð um efni og hluti sem snerta matvæli eru strangar kröfur um hámarksflæði þalata. Ef leifar þeirra eru í hlutum sem ætlað er að snerta matvæli geta þau borist í matvælin, sérstaklega heit, fiturík og/eða súr matvæli. Magn þalata er þó oftast lítið og flæði úr hlut er mest þegar hann er nýr og minnkar eftir endurtekna þvotta og notkun. Því er oft talið betra að halda áfram að nota gamla plasthluti en að henda þeim og kaupa nýja.

Matvælastofnun ráðleggur neytendum að þvo vandlega nýja plasthluti og alla hluti sem ætlað er að snerta matvæli með heitu vatni og sápu áður en þeir eru notaðir í fyrsta skipti.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?