Flæði formaldhýðs yfir mörkum í diskasetti fyrir börn
Matvælastofnun varar við diskasetti fyrir börn vegna of mikils flæðis formaldehýðs úr settinu yfir í matvæli. Þorsteinn Bergmann ehf. hefur tekið vöruna úr sölu í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Matvælastofnun fékk upplýsingar um vöruna í gegnum evrópska viðvörunarkerfi RASFF. Í reglubundnu markaðseftirliti í Þýskalandi var athugað hversu mikið formaldehýð fór úr vörunni í matvæli og reyndist magnið vera 171 / 177 mg/kg (ppm). Samkvæmt löggjöf um matvælasnertiefni má flæði formaldehýðs úr efnum og hlutum sem ætlað er að snerta matvæli ekki fara yfir 15 mg/kg (ppm).
Eftirfarandi upplýsingar auðkenna vöruna sem innköllunin einskorðast við:
- Vöruheiti: 5er Set Kindergeschirr aus Bambusfaser – Kids Dish Set Bamboo Fiber
- Í settinu eru: Skál, diskur, glas, skeið og gaffall úr bambustrefjum
- Innflytjandi: Þorsteinn Bergmann ehf.
- Framleiðsluland: Kína
- Dreifing: Verslun Þorsteins Bergmanns, Hraunbæ 102, 110 Reykjavík
Neytendur sem eiga vöruna eru beðnir um að farga henni. Nánari upplýsingar veitir verslun Þorsteins Bergmanns í síma 567 2867.