Vöktun flúors í Reyðarfirði
Nýlega greindust hækkuð gildi flúors í grasi í mælingum Alcoa á mengun frá álveri fyrirtækisins í Reyðarfirði. Alcoa hefur upplýst Matvælastofnun um allar flúormælingar sem Náttúrustofa Austurlands hefur framkvæmt fyrir fyrirtækið á þessu ári og standa nú yfir mælingar á heyi og dýrum í nágrenni álversins. Uppsöfnun flúors getur haft skaðleg áhrif á heilbrigði grasbíta en ekki er tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu.
Meðaltal sumarmælinga á flúori á túnum og beitarsvæðum var á bilinu 30-70 mg/kg. Í þriðjungi tilfella (byrjun júlí og lok ágúst) var meðaltal mælinga á bilinu 50-70 mg/kg sem er yfir leyfilegu hámarki fyrir nautgripi, sauð- og geitfé. Samkvæmt reglugerð um óæskileg efni í fóðri eru hámarksgildi flúors í fóðri 50 mg/kg fyrir ofangreindar dýrategundir en 30 mg/kg ef þær eru mjólkandi. Hærri hámarksgildi eiga við aðrar dýrategundir (100-350 mg/kg). Náttúrustofa Austurlands framkvæmir sýnatökuna fyrir álver Alcoa í Reyðarfirði en samkvæmt starfsleyfi ber Alcoa að fylgjast með flúormengun frá álverinu.
Matvælastofnun bíður nú niðurstaðna úr sýnatöku af heyi og sauðfjárhausum frá bænum Sléttu við sunnanverðan fjarðarbotn Reyðarfjarðar. Niðurstöðurnar munu varpa ljósi á ástand heys og dýra þar sem búfjárrækt er mest í nágrenni álversins. Matvælastofnun mun í kjölfarið skoða niðurstöðurnar í heild sinni og leggja mat á hvort þörf er á frekari sýnatöku eða aðgerðum. Þangað til telur Matvælastofnun ekki ástæðu fyrir bændur á Austurlandi að breyta búháttum sínum, fóðrun eða beitarvenjum.
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gerði áhættumat á neyslu manna á flúori í gegnum matvæli í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli 2010. Í þeirri skýrslu er fjallað um öryggismörk daglegrar neyslu flúors og upptöku flúors í matjurtum og dýrum. Hækkuð gildi flúors í grasi utan þynningarsvæðis álvers Alcoa í Reyðarfirði í sumar gefa ekki tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu. Hins vegar eiga grasbítar meira á hættu að verða fyrir skaða ef slíkt ástand varir. Hækkun flúors í grasi í sumar ítrekar mikilvægi þess að álver viðhaldi viðeigandi vöktunaráætlun og tækjabúnaði til að halda mengandi starfsemi innan þeirra marka sem starfsleyfi frá Umhverfisstofnun kveða á um og bregðist hratt við þegar út af bregður.
Ítarefni
- Skýrsla Matvælaöryggisstofnun Evrópu um heilsuáhrif Eldgossins í Eyjafjallajökli
- Hækkuð gildi á flúor í grasi í Reyðarfirði - Frétt Umhverfisstofnunar 05.10.12
- Fyrirkomulag umhverfisvöktunar í Reyðarfirði - Frétt Umhverfisstofnunar 10.10.12