Um starfsemi héraðsdýralækna
Frétt -
30.11.2012
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Á undanförnum 15 til 20 árum hafa verið gerðar nokkrar breytingar á héraðsdýralæknakerfinu, sem vert er að hafa í huga þegar núverandi starfsemi héraðsdýralækna er skoðuð.
Eldra fyrirkomulag
Fyrir tilkomu núverandi laga um dýralækna nr. 66/1998 voru á landinu 27 héraðsdýralæknar sem höfðu allir tvöföldu hlutverki að gegna. Þeir voru annars vegar opinberir embættismenn sem sinntu ýmsum eftirlitshlutverkum, svo sem sjúkdómavörnum, kjötskoðun og heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum og eftirliti með framleiðslu mjólkur og dýravelferð. En hins vegar sinntu þeir einnig þjónustu við dýraeigendur vegna veikra og slasaðra dýra. Á árunum eftir 1990 fór sjálfstætt starfandi dýralæknum hægt fjölgandi og hófu aðallega störf á þéttbýlli svæðum, þar sem fjöldi bæði húsdýra og gæludýra var mestur og samgöngur auðveldastar. Fljótlega vöktu þeir athygli á skakkri samkeppnisstöðu þeirra gagnvart héraðsdýralæknum sem höfðu föst mánaðarlaun frá hinu opinbera. Sjálfstætt starfandi dýralæknar bentu réttilega á að héraðsdýralæknar gætu af þessum sökum haldið úti lægri gjaldskrá og þannig skekkt eðlilega samkeppni um dýralæknisþjónustu.Nokkrir sjálfstætt starfandi dýralæknar óskuðu því eftir áliti samkeppnisráðs um ofangreind ágreiningsmál, sem síðar úrskurðaði að jafna bæri samkeppnisaðstöðu dýralækna með því að aðskilja almenna dýralæknaþjónustu og opinbert eftirlit. Jafnframt ætti að afnema opinbera gjaldskrá fyrir þjónustustörf dýralækna og að gera dýralæknum óheimilt að hafa sameiginlega gjaldskrá.
Af þessum orsökum og öðrum var ráðist í að endurskoða lög um dýralækna sem voru að stofni til frá árinu 1970. Með lögunum frá 1998 kom inn sú stefna að aðskilja bæri þjónustu og eftirlit dýralækna þar sem því yrði við komið og var héraðsdýralæknum fækkað í kjölfarið í 16 og þrjú embætti á þéttbýlustu svæðunum gerð að hreinum eftirlitsembættum, þ.e.a.s. á Suðurlandi, Gullbringu- og Kjósarsýslu og í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum. Til viðbótar þessum héraðsdýralæknum voru síðan ráðnir eftirlitsdýralæknar, en þjónusta við dýraeigendur í þessum umdæmum var þar með öll í höndum sjálfstætt starfandi dýralækna eins og óskað hafði verið eftir.
Núverandi fyrirkomulag
Þetta fyrirkomulag þótti gefast nokkuð vel og þegar matvælalöggjöf Evrópusambandsins (ESB) var lögleidd með lögum nr. 143/2009, þá þurfti um leið að breyta ýmsum íslenskum lögum og þ.á.m. lögum nr. 66/1998 um dýralækna. Þá var ákveðið að stíga skrefið til fulls um aðskilnað þjónustu og eftirlits, bæði vegna ofangreindra samkeppnismála og einnig vegna ríkra krafna í reglugerðum ESB um að koma yrði í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra hjá öllum eftirlitsmönnum sem störfuðu við matvælaeftirlit. Með endanlegri gildistöku laga nr. 143/2009 þann 1. nóvember 2011 þá var ákveðið að fækka umdæmum héraðsdýralækna í 6 og að eftirlitsdýralæknar væru aðeins starfandi í fjórum af þessum umdæmum.Við setningu laganna frá árinu 2009 var sett fram mjög skýr krafa um að ríkinu væri skylt að sjá til þess að dýraeigendur á dreifbýlli svæðum fengju dýralæknaþjónustu, í stað þeirrar þjónustu sem héraðsdýralæknarnir höfðu áður veitt og þar sem ekki væri líklegt að sjálfstætt starfandi dýralæknar tækju sér búsetu, án sérstaks stuðnings. Matvælastofnun var falin útfærsla og framkvæmd þessa ákvæðis, og stofnunin gerði þá sérstaka þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi dýralækna á 9 þjónustusvæðum en um það mál verður nánar fjallað síðar í annarri grein..
Mikilvægi góðrar samvinnu bænda og Matvælastofnunar
Matvælastofnun (MAST) hafa borist á liðnu ári nokkrar athugasemdir og kvartanir frá bændum vegna þessa breytta fyrirkomulags þar sem héraðsdýralæknir og eða eftirlitsdýralæknir frá Matvælastofnun kemur nú eingöngu á bæi í embættiserindum til eftirlits, en hvorki getur né má sinna þjónustu eða ráðgjöf í leiðinni eins og áður var. Í langflestum tilfellum hefur þessum dýralæknum verið vel tekið, en á því eru því miður örfáar undantekningar. Í þessu sambandi skal á það bent að Matvælastofnun hefur í heild sinni gífurlega miklu hlutverki að gegna við að tryggja eins og unnt er heilnæmi búfjár og öryggi þeirra matvæla sem hér eru framleidd og markaðssett. Það er mikilvægt að allir átti sig á því að framleiðsla bænda er nú komin í frjálst flæði til landa evrópska efnahagssvæðisins, þó það sama gildi ekki um vörur þaðan og hingað til lands. Þetta þýðir að nú er allt matvælaeftirlit í samræmi við reglugerðir Evrópusambandsins, sem Alþingi hefur samþykkt og innleiddar eru af viðkomandi ráðuneyti. Matvælastofnun er treyst fyrir því að hafa yfirumsjón með allri matvælaframleiðslu hér á landi „frá hafi og haga til maga“ í samræmi við þessar reglugerðir og þá er haft í huga að eftirlitið skuli hvorki vera strangara eða veikara en í öðrum löndum evrópska efnahagssvæðisins. Bændur sem eru að framleiða kjöt og mjólk þurfa að gera sér grein fyrir því að heimsókn opinbers dýralæknis er í þeim tilgangi að fylgjast með heilbrigði, hreinlæti, lyfjanotkun og dýravelferð á búinu. Þessar heimsóknir eru einn fyrsti liðurinn í umfangsmiklu eftirlitskerfi Matvælastofnunar til að tryggja heilnæmi afurðanna svo að hægt sé að koma þeim í verð. Á síðari stigum hefur Matvælastofnun eftirlit með afurðunum í sláturhúsum og mjólkurstöðvum og að lokum koma svo starfsmenn Matvælastofnunar að því að sinna útgáfu nauðsynlegra vottorða til útflutnings, sem einmitt verða að byggjast á eftirlitinu á fyrri stigum hafi verið sinnt og að öll aðstaða og framleiðsla hafi staðist þar til gerðar kröfur.Erlendar eftirlitsstofnanir senda síðan sína eftirlitsmenn í eftirlitsferðir mörgum sinnum á ári til að fara yfir, og gera athugasemdir ef með þarf, við það eftirlit sem Matvælastofnun hefur á þessu sviði. Þessir eftirlitsmenn óska iðulega eftir því að fara í heimsóknir á frumframleiðslustaðina og bændur hafa jafnan tekið þeim beiðnum vel, enda langflestir bændur stoltir af sinni framleiðslu og með góðan skilning á nauðsyn og þýðingu öflugs eftirlits með framleiðslunni.
Við megum ekki gleyma því að við erum matvælaframleiðsluþjóð og byggjum afkomu okkar m.a. á frumframleiðslugreinunum. Því er góð samvinna bænda og eftirlitsmanna Matvælastofnunar forgangsmál til að tryggja þau hágæða matvæli sem við viljum framleiða hér og markaðssetja bæði hérlendis og erlendis.