Fara í efni

Matvælastofnun skylt að upplýsa um fjölda sláturgrísa á svínabúi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á nýliðnu ári barst Matvælastofnun ósk í fjórum liðum um aðgang að gögnum varðandi tiltekið svínabú á Vesturlandi. Stofnunin veitti aðgang að gögnum varðandi fyrstu þrjá töluliðina en taldi sér óheimilt að veita aðgang skv. fjórða liðnum. Þar var óskað eftir upplýsingum um fjölda grísa sem slátrað var á búinu árið 2016. Byggðist synjun Matvælastofnunar á því að um væri að ræða mikilvæga viðskiptahagsmuni svínabúsins sem stofnuninni væri óheimilt að greina frá.

Synjun Matvælastofnunar var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og féll úrskurður nýlega. Þar kemur fram að stofnuninni sé skylt að veita aðgang að umræddum gögnum. Byggist það m.a. á því að það fyrirtæki sem í hlut á rekur a.m.k. fjögur önnur svínabú til viðbótar umræddu svínabúi á Vesturlandi. Þá séu upplýsingar um stærð búsins á almannavitorði m.a. út af fyrri dómsmálum. Birting upplýsinganna geti því ekki skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækisins að dómi úrskurðarnefndarinnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?