Fara í efni

Markviss framþróun hjá Matvælastofnun

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í dag birti Ríkisendurskoðun skýrslu um úttekt á starfsemi Matvælastofnunar. Ríkisendurskoðun segir í niðurstöðum sínum að „Gera má ráð fyrir að árleg markmiðssetning, reglubundið sjálfsmat og öflugt gæðastjórnunarkerfi þar sem verkferlar og verklagsreglur eru í reglubundinni endurskoðun muni stuðla að því að fagleg og samræmd vinnubrögð stofnunarinnar eflist í komandi framtíð.“

Að mati Ríkisendurskoðunar „vinnur Matvælastofnun skipulega að umbótaverkefnum sem hjálpa stofnuninni m.a. að bregðast við þeirri gagnrýni sem starfshættir hennar hafa sætt.“ Þá kemur fram „að Matvælastofnun er ung stofnun (frá árinu 2008) sem hefur tekið við fjölmörgum og viðamiklum verkefnum frá þeim tíma sem hún var stofnuð (sjá kafla 2.2.2). Ríkisendurskoðun hvetur Matvælastofnun til að halda áfram á þeirri uppbyggilegu braut sem hún hefur markað sér um sífelldar umbætur og markvissa framþróun starfseminnar.“

Ábendingar Ríkisendurskoðunnar til Matvælastofnunar eru að tryggja skýrt verklag og góða stjórnsýsluhætti og að gæta meðalhófs í lagatúlkun og eftirliti. Stofnunin er hvött til „að ljúka við að koma á skýru og samþykktu verklagi svo vinnubrögð hennar við stjórnsýslu, eftirlit og þjónustu verði faglegri og samræmdari á landsvísu.“ Gæðahandbók og skoðunarhandbækur Matvælastofnunar eru aðgengilegar á vef hennar og ná þegar yfir stærsta hluta starfseminnar. Stofnunin mun kappkosta að ljúka sem fyrst við gerð verklagsreglna og skoðunarhandbóka fyrir alla starfsemina. 

Þeim ábendingum er beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að setja rammalög um Matvælastofnun og að kanna hvort matvælaeftirlit á Íslandi verði skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara ef það yrði sameinað á eina hendi. Einnig er bent á að tryggja þurfi að nauðsynlegt fjármagn fylgi þeim lögbundnu verkefnum sem Matvælastofnun er ætlað að sinna. Þá þurfi ráðuneytið að skilgreina betur eigin ábyrgð og tryggja að mörk milli þess og stofnunarinnar séu skýr gagnvart eftirlitsskyldum aðilum og öðrum hagsmunaaðilum.

Ýmis viðhorf sem fram koma í úttekt Ríkisendurskoðunar beinast að Matvælastofnun og eftirlitsþegum og því er ekki úr vegi að láta hér einnig fylgja tengil á nýlega viðhorfskönnun sem stofnunin lét gera til að kanna traust almennings til hennar. Matvælaöryggi og neytendavernd eru mikilvægar forsendur löggjafar um matvæla- og fóðureftirlit, en almenningur sýnir öðrum verkefnum Matvælastofnunar einnig vaxandi áhuga og á það ekki síst við um dýravelferð. Því er ánægjulegt að kannanir sýna að stofnunin nýtur trausts í samfélaginu, þó svo eftirlitsskyldir aðilar séu ekki alltaf á eitt sáttir.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?