Fara í efni

Hvað er fóður?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fóður er ekki aðeins það sem dýraeigendur kaupa í pokum með mynd af dýrum sínum utan á. Allt hráefni sem nýtt er til fóðurgerðar er fóður og um það gilda tilheyrandi lög og reglur. Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var farið yfir þær reglur sem gilda um merkingar fóðurs. Hér verður gerð grein fyrir nokkrum hugtökum er varða fóður og notkun þess.

Fóður er efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem ætluð eru til fóðrunar dýra. Til fóðurs teljast einnig öll efni sem eru blönduð í fóður t.d. aukefni. 

Með fóðrun er átt við það að koma fóðri í meltingarveg dýrs um munn þess í þeim tilgangi að uppfylla næringarþarfir dýrsins og/eða viðhalda framleiðni dýra sem eru við eðlilega heilsu. Dýrin geta bæði tekið fóður sjálfviljug eða með inngjöf. Lyf eru ekki fóður og eru það einu efnin sem fara í  gegn um munn og í meltingarveg dýra sem ekki eru fóður.

Fóðurfyrirtæki er fyrirtæki sem starfar við framleiðslu, vinnslu, geymslu, flutning eða dreifingu fóðurs. Það á einnig við um framleiðslu, vinnslu eða geymslu framleiðanda á fóðri handa dýrum á eigin bújörð, hvert sem rekstrarform fyrirtækisins er. 

Stjórnandi fóðurfyrirtækis er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum um matvæli í fóðurfyrirtækjum undir þeirra stjórn. Fóðurfyrirtæki þurfa því að vera með ákveðinn forsvarsmann sem er ábyrgur fyrir framleiðslu fyrirtækisins.

Fóðurefni geta verið úr jurta- eða dýraríkinu og eru ætluð til að uppfylla næringarþarfir dýra, eins og þau koma fyrir í náttúrunni, fersk eða rotvarin. Þau geta verið afurðir úr iðnaðarvinnslu og þau geta verið lífræn eða ólífræn efni. Fóðurefni geta verið  með eða án fóðuraukefna. Þau eru ætluð til fóðrunar dýra, annaðhvort óbreytt eða eftir vinnslu, eða notuð til framleiðslu á fóðurblöndum.

Fóðurblanda er blanda tveggja eða fleiri fóðurefna, með eða án fóðuraukefna og eru gefnar dýrum sem heilfóður eða fóðurbætir. 

Heilfóður er fóðurblanda sem vegna samsetningar sinnar telst fullnægjandi dagskammtur fyrir viðkomandi dýrategund. Í heilfóðri verða næringarefnin því að vera í réttum hlutföllum fyrir þau dýr sem fóðrið er ætlað. Í þessu fóðri eru ákveðin næringarefni sem dýr þurfa í litlu magni t.d. snefilefni og vítamín, en þau geta valdið eitrunum séu þau í of miklu magni.  Dýr sem alin eru á heilfóðri þurfa yfirleitt ekki annað fóður. Heilfóður er t.d. gefið alifuglum, svínum, eldisfiski og gæludýrum. 

Fóðurbætir er fóðurblanda sem inniheldur tiltekin efni í ríkum mæli en sem vegna samsetningar sinnar telst því aðeins fullnægjandi dagskammtur að hún sé notuð með öðru fóðri. Fóðurbætir getur því verið margskonar t.d. telst steinefnafóður vera fóðurbætir. Einnig forðastautar sem skotið er í meltingarveg dýra. Fóðurbætir má innihalda allt að hundraðfaldan styrk ákveðinna efna t.d. snefilefna og vítamína miðað við það sem leyft er í heilfóðri. Fóðurbætir er því gefinn með öðru fóðri til að bæta upp og tryggja að viðkomandi dýr fá fullnægjandi skammt af ákveðnum næringarefnum.

Staðgöngumjólk er fóðurblanda sem gefin er í duftformi eða eftir þynningu í ákveðnu magni af vökva til að fóðra ung dýr til viðbótar við eða í staðinn fyrir móðurmjólk eftir brodd t.d. kálfa, lömb eða kiðlinga. Staðgöngumjólk getur því bæði flokkast sem heilfóður eða fóðurbætir allt eftir því hvernig hún er notuð, ein sér eða til viðbótar öðru fóðri.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?