Fiskeldi án alvarlegra veirusjúkdóma
Frétt -
25.03.2013
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Matvælastofnun hefur óskað eftir staðfestingu frá Eftirlitsstofnun EFTA á að fiskeldi á Íslandi sé laust við blóðþorra (ISA). ISA er veirusjúkdómur sem er einn helsti skaðvaldur í laxeldi erlendis en hefur aldrei greinst í eldi hérlendis. Áður hefur íslenskt fiskeldi fengið samskonar viðurkenningu fyrir að vera laust við veirusjúkdómana iðradrep (IHN) og veirublæði (VHS). Aldrei hafa alvarlegir sjúkdómar af veiruuppruna greinst í fiskeldi á Íslandi sem þykir einstakt á heimsvísu. Þessi staða er mikil hvatning fyrir innlenda kynbótastarfsemi og er íslenskt erfðaefni eftirsótt víða erlendis til áframeldis.