Fara í efni

Dýraeftirlitsmaður aftur til starfa

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsmaður á sviði dýrahalds, sem ráðinn var til starfa hjá Matvælastofnun, hefur ekki gerst sekur um vanrækslu eða illa meðferð hrossa. Þetta er niðurstaða álitsgerðar þriggja óháðra sérfræðinga sem Matvælastofnun fól að skoða málið. Stofnunin hefur því ákveðið að starfsmaðurinn komi aftur til starfa frá og með deginum í dag.

Sérfræðingarnir sem höfðu málið til skoðunar hafa reynslu og þekkingu á löggjöf um heilbrigði og velferð dýra, á dýralækningum, hrossarækt og hestamennsku. Þeir eru Atli Már Ingólfsson hdl., dr. Eggert Gunnarsson, dýralæknir og fulltrúi í dýralæknaráði og Ágúst Sigurðsson rektor, búvísindamaður og fyrrverandi hrossaræktarráðunautur.

Í lok janúar ákvað Matvælastofnun í samráði við nýráðinn dýraeftirlitsmann að hann viki tímabundið frá störfum meðan fram færi skoðun á þeim ásökunum að hann hafi á sínum tíma ekki gætt að eðlilegum starfsháttum við eftirlit með stóðhestahólfum sem hann hafði umsjón með. Áður hafði hann þó viðurkennt ábyrgð sína og hlutdeild í máli sem varðaði tiltekinn stóðhest á árinu 2007, en því var á sínum tíma lokið af hálfu yfirdýralæknis. Var það því ekki til skoðunar nú, heldur eingöngu afmörkuð mál sem tilynnt voru til stofnunarinnar eftir ráðningu starfsmannsins.

Sérfræðingarnir ræddu við starfsmanninn, eigendur eða forráðamenn þeirra hrossa sem um ræðir og dýralækna sem komu að þeim málum og stóðhestahaldi mannsins. Í álitinu er gerð grein fyrir hverju máli fyrir sig, en jafnframt kemur fram að starfsmaðurinn hafi rekið umfangsmikla stóðhestamiðlun í yfir 10 ár þar sem um 1.000 hryssum hafi verið haldið undir hesta á hans vegum. Að mati dýralækna sem rætt var við voru þau tilvik sem vitað er að upp hafi komið í stóðhestahólfum á vegum starfsmannsins fá og ekki tilkomin vegna vanrækslu.

Álit sérfræðinganna er dregið saman í lok álitsgerðarinnar á eftirfarand hátt: Eftir að hafa farið ítarlega yfir þau mál sem tilkynnt hafa verið til MAST og hvernig staðið var að starfsemi aðila málsins er ekki hægt að sjá að umrædd tilvik séu afleiðing vanrækslu eða illrar meðferðar af hans hálfu. Er það okkar mat að eðlilegum starfsháttum hafi verið fylgt og að brugðist hafi verið rétt við í þeim tilvikum sem um ræðir.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?