Fara í efni

Breyting á rekstrarleyfi vegna færslu sjókvía

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur gefið út breytt rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldisstöðvar Fjarðalax í Patreksfirði.

Rekstrarleyfi Fjarðalax hf til framleiðslu á laxi í sjókvíum í nýjum stöðvum í Patreksfirði og Tálknafirði voru gefin út í desember 2017. Í upphafi árs kom í ljós að færa þyrfti til eldissvæði Fjarðalax að Eyri í Patreksfirði vegna straumstefnu fjarðarins. Breyting á staðsetningu eldissvæðanna er til bóta fyrir umhverfið og eldisfiskinn og var það mat Skipulagsstofnunar að breytingin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun vinnur að útgáfu nýs starfsleyfis en ljóst er að starfsleyfi verður ekki gefið út fyrr en í fyrsta lagi í júlí. Vegna áætlana Fjarðalax að setja út seiði í byrjun júní sótti fyrirtækið um undanþágu frá starfsleyfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins svo unnt væri að gefa út breytt rekstrarleyfi af hálfu Matvælastofnunar með nýrri staðsetningu sjókvía.

Í umsögn Umhverfisstofnunar vegna meðferðar umhverfisráðuneytisins kemur fram að breytingin sé ekki líkleg til að auka lífrænt álag í firðinum heldur væri hún til þess fallin að draga úr neikvæðum umhverfisaðstæðum. Kröfur í starfsleyfi munu haldast óbreyttar og gerði Umhverfistofnun ekki athugasemdir við að undanþága yrði veitt. Umhverfisráðuneytið veitti í framhaldinu undanþáguna og gildir hún til 1. október 2018.

Matvælastofnun telur að um óverulega breytingu á útgefnu leyfi frá desember 2017 sé að ræða, þar sem eingöngu er um að ræða breytingar á hnitum á einu eldisvæði og dagsetningu áður útgefins leyfis. Breytingin telst á allan hátt jákvæð með tilliti til umhverfis og velferðar fisksins og hefur stofnunin því breytt rekstrarleyfi varðandi staðsetningu kvíar að Eyri í Patreksfirði. 


Getum við bætt efni síðunnar?