Fara í efni

Blæðandi garnasýking af völdum saurgerla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fyrir tæplega þremur vikum veiktist tveggja og hálfs ár gömul stúlka til heimilis á Akureyri  af blæðandi garnasýkingu af völdum E. coli bakteríu sem myndar eiturefni. Stúlkan var meðhöndluð á gjörgæsludeild Landspítalans en er á batavegi. Helstu einkenni sýkingar af þessum toga eru niðurgangur en alvarleg einkenni á borð við blæðingar og nýrnabilun geta fylgt í kjölfarið.  Þessar sýkingar eru afar sjaldgæfar hér á landi en vel þekktar í nágrannalöndum okkar.

Rannsókn málsins hefur beinst að því að finna fleiri tilfelli og frá hvaða matvælum sýkingin kann að hafa borist. Einnig var mælst til að börn á þeim leikskóla á Akureyri sem stúlkan sækir dveldust heima  ef þau væru með niðurgang. Tekin voru sýni frá sex öðrum börnum frá leikskólanum sem ekki reyndust vera með smit af völdum þessarar bakteríu.  Ekki hefur tekist að sýna fram á sýkingarvald í sýnum frá matvælum. 

Þessi rannsókn fór  fram í samvinnu sóttvarnalæknis og Matvælastofnunar ásamt sýklafræðideild Landspítala og Matís. Að rannsókninni komu einnig sóttvarnalæknir Norðurlands, heilbrigðisfulltrúar og læknar á Akureyri og sýklafræðideildin á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Til að draga úr líkum á smiti er mikilvægt að hreinlætis sé gætt, með því að þvo sér oft um hendur, tryggja fullnægjandi hitun matvæla þar sem það á við, koma í veg fyrir krossmengun matvæla og skola vel grænmeti. Auk þess er mikilvægt að einstaklingar með einkenni um matarsýkingu, svo sem niðurgang og uppköst, starfi ekki við matvælaframleiðslu og framreiði ekki mat fyrir aðra.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?