Aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu
Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið. Það þýðir að allir fuglar í haldi þurfa tímabundið að vera haldnir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn eða í fuglaheldum húsum. Smitvarnir skulu viðhafðar sem miða að því að ekki getur borist smit frá villtum fuglum í alifugla. Allir alifuglar skulu skráðir í gagnagrunninum Bústofn.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Var það gert á grundvelli tillögu Matvælastofnunar til ráðuneytisins vegna mikillar útbreiðslu fuglaflensu af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af semisgerðinni H5N8 í Evrópu frá því í október í fyrra. Alvarlega afbrigðið H5N8 hefur m.a. greinst á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.
Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum sem nú eru farnir að streyma til landsins. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á, auk ýmis konar takmarkana sem leggja þarf á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú. Ekki er talin vera smithætta fyrir fólk af þessu afbrigði fuglaflensuveirunnar og ekki stafar smithætta af neyslu afurða úr alifuglum. Það er óvíst hvað aukið viðbúnaðarstig mun vara í langan tíma en starfshópurinn endurmetur smithættuna reglulega.
Eftirfarandi reglur um smitvarnir hafa verið birtar:
a) Fuglarnir skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.
b) Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla. Hús og gerði skulu vera fuglaheld.
c) Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.
d) Fóður og drykkjarvatn fuglanna skal ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.
e) Endur og gæsir skulu aðskildar frá hænsnfuglum.
f) Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður og fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum.
g) Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.
h) Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.
i) Áður en fuglar eru fengnir frá öðrum búum skal spyrjast fyrir um hvort heilsufar fugla á búinu hafi verið eðlilegt. Fuglar skulu ekki teknir inn á bú frá búum þar sem sjúkdómsstaða er óþekkt eða eitthvað virðist vera athugavert við heilsufar.
j) Mælt er með „allt inn – allt út“ kerfi, þ.e.a.s. að allir fuglar séu fjarlægðir af búi áður en nýir eru teknir inn.
k) Hús og gerði skulu þrifin vel og sótthreinsuð á milli hópa.
l) Farga skal dauðum fuglum, undirburði og skít á öruggan hátt.
m) Tryggja skal góðar smitvarnir við vatnsból.
n) Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.
Fyrir eigendur alifuglabúa með 250 fugla eða fleiri gilda að auki ákvæði í 20. og 21. grein um smitvarnir í reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla.
Huga skal að velferð alifugla í frístundahaldi meðan þeir eru haldnir í meira aðhaldi en þeir eru vanir, sjá leiðbeiningar Matvælastofnunar þess efnis.
Mikilvægt er að allir alifuglar séu skráðir í gagnagrunninum Matvælastofnunar, Bústofn, líka þegar um fáa alifugla er að ræða. Þeir sem hafa ekki þegar gert það eru beðnir um að tilkynna alifuglahaldið sitt til Matvælastofnunar, með tölvupósti á mast@mast.is. Matvælastofnun gengur svo frá skráningu. Þessar upplýsingar eru mikilvægar svo Matvælastofnun geti haft samband við alifuglaeigendur á ákveðnum svæðum, sé þess þörf.
Áfram er það mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningu um dauða fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós (svo sem þegar flogið er á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla). Eins og áður var bent á þá er þetta afbrigði fuglaflensuveirunnar H5N8 ekki hættulegt mönnum en best er að snerta ekki fuglinn og tilkynna tafarlaust um fundinn.
Matvælastofnun mun auka vöktun á tilvist fuglaflensuveira í villtum fuglum nú í vor með sýnatökum úr þeim fuglum sem eru líklegastir til að bera fuglaflensuveirur.
Ítarefni
- Upplýsingar Matvælastofnunar um viðbúnað vegna fuglaflensu, ásamt leiðbeiningum til fuglaeigenda
- Tilkynna dauða fugla til Matvælastofnunar
- Líklegt að fuglaflensa berist til landsins - frétt Matvælastofnunar frá 02.03.17