Áhættumat á matvælum öðrum en dýraafurðum
Matvæli sem ekki eru af dýrauppruna, s.s. ávextir, grænmeti, kornmeti og krydd, eru mikilvægur hluti af mataræði okkar. Þessi matvæli eru að jafnaði tengd við hollt mataræði og stafar almennt ekki hætta af þeim. Hins vegar geta þau stundum valdið allt frá mildum að alvarlegum matarsjúkdómum. Matvælaöryggisstofnun Evrópu hefur undanfarin ár rannsakað hættuna sem stafar af matvælum sem ekki eru af dýrauppruna.
Mismunandi hættur tengjast mismunandi matvælum. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) lagði mat á það hvaða örverur í hvaða matvælum sem ekki eru af dýrauppruna neytendum stafar helst hætta af. Mesta áhættan skv. mati EFSA er af salmonellu í blaðgrænmeti sem borðað er hrátt. Þar á eftir koma salmonella í stöngulgrænmeti og laukum, salmonella í tómötum, salmonella í melónum og sjúkdómsvaldandi E.coli í ferskum baunabelgjum, öðrum belgjurtum og korni. Aðrar örverur sem geta smitað fólk við neyslu á matvælum sem ekki eru af dýrauppruna eru nóróveira, Shigella, Bacillus, Yersinia og lifrarbólgu-A veiran.
Matvælin sem ekki eru af dýrauppruna og valda mestri áhættu innan Evrópu eru blaðgrænmeti, laukar og stöngulgrænmeti, tómatar, melónur, ferskir fræbelgir, belgávextir eða korn, spíruð fræ og ber skv. EFSA. Þessi matvæli, sem ýmist eru borðuð hrá eða unnin, eru að jafnaði laus við eiturefni og sjúkdómsvaldandi örverur. Það kemur þó fyrir að neysla þeirra hafi valdið alvarlegum sjúkdómum, sem geta verið banvænir. Sem dæmi þá olli E.coli faraldurinn í Þýskalandi árið 2011, sem rekja mátti til neyslu á baunaspírum, 53 dauðsföllum og 2.300 innlögnum.
Samanburður við matvæli af dýrauppruna á árunum 2007-2011 sýnir að sjúkdómar af völdum matvæla sem ekki eru af dýrauppruna eru fátíðari og ekki eins alvarlegir þegar litið er til fjölda dauðsfalla og innlagna á spítala. Skv. EFSA ollu matvæli sem ekki eru af dýrauppruna 10% faraldra, 26% matarsjúkdóma í fólki, 35% innlagna og 46% dauðsfalla árin 2007-2011. Ef E.coli faraldurinn árið 2011 er ekki talinn með þá ollu matvæli sem ekki eru af dýrauppruna eingöngu 5% af dauðsföllum af völdum matarsjúkdóma á tímabilinu.
Á tímabilinu mátti sjá aukningu á fjölda faraldra, matarsjúkdóma í fólki, innlagna og dauðsfalla sem rekja mátti til neyslu matvæla sem ekki voru af dýrauppruna. Hins vegar halda matvæli af dýrauppruna (dýraafurðir) áfram að vera langalgengasta orsök af öllum skráðum faröldrum eða 90%.Minnka má líkur á matarsjúkdómum með góðum starfsháttum í landbúnaði, góðum framleiðsluháttum, réttri meðhöndlun matvæla og skilvirku innra eftirliti matvælafyrirtækja. Neytendur skulu ávallt geyma, meðhöndla og matreiða matvæli af nærgætni, þ.á.m. að þvo hendur og gæta hreinlætis í eldhúsinu, aðskilja hráan og eldaðan mat og geyma mat við rétt hitastig.
Ítarefni
- Frétt EFSA um hættuna af matvælum öðrum en dýraafurðum
- Sérfræðinganefnd EFSA um líffræðilega áhættu
- EFSA skoðar hætunna af matvælum öðrum en dýraafurðum
- Gulrætur, laukar og stöngulgrænmeti: Hætta af völdum salmonellu og annarra sýkla
- Áhættumat EFSA vegna salmonellu í tómötum og melónum
- Áhættumat EFSA vegna salmonellu og nóróveiru í berjum