Verkefnastaða Matvælastofnunar við lok verkfalls
Verkfalli náttúrufræðinga, matvæla- og næringarfræðinga og dýralækna hjá Matvælastofnun lauk með lagasetningu um síðustu helgi. Með endurkomu starfsmanna færist eftirlit með matvælaöryggi og dýravelferð, kjötframleiðsla og inn- og útflutningur matvæla, plantna, fóðurs, áburðar, annarra afurða og lifandi dýra í samt horf. Fjöldi mála bíða hins vegar afgreiðslu og mun Matvælastofnun kappkosta að flýta fyrir afgreiðslu þeirra eins og kostur er.
Á næstu dögum og vikum mun mikið mæða á inn- og útflutningsskrifstofu stofnunarinnar. Starfsfólk hefur verið fært til í störfum til að auka mannafla við skrifstofuna og flýta þannig fyrir afgreiðslu sendinga til og frá landinu. Engu að síður má búast við einhverjum töfum miðað við eðlilegar aðstæður. Þeir innflytjendur sem biðu afgreiðslu viðkvæmrar vöru, t.d. matvæla sem voru að komast á síðasta neysludag eða vöru sem gæti legið undir skemmdum, voru beðnir um að ítreka erindi sín með því að senda tölvupóst á netfangið innflutningur@mast.is, með frekari gögnum og rökum fyrir flýtimeðferð. Það sama gildir um þá sem færa rök fyrir flýtimeðferð af öðrum ástæðum. Nú þegar hefur helmingur þeirra u.þ.b. 300 sendinga sem biðu afgreiðslu innflutningseftirlitsins verið afgreiddur.
Dýralæknar Matvælastofnunar mættu í sláturhús á mánudag og hefur slátrun gengið eðlilega frá þeim tíma. Reglubundið eftirlit með matvælaöryggi, áburði, fóðri, pöntuheilbrigði, dýraheilbrigði, dýravelferð og öðrum málum færist nú í eðlilegt horf, en á sama tíma hófst vinna við að fara yfir þau mál sem ekki fengu forgang eða veitt var undanþága fyrir á meðan á verkfalli stóð. Farið er í mál skv. forgangsröðun stofnunarinnar, en óhjákvæmilegt er að töf verði á afgreiðslu sumra mála, enda ljóst að það mun taka tíma að vinna úr þeim uppsöfnuðu verkefnum sem verkfallið hafði í för með sér.
Áhrifa verkfallsins gætti víða og því er mikilvægt að sátt náist um starfskjör að lokinni kjaradeilu þannig að tryggja megi hnökralausa starfsemi stofnunarinnar gagnvart fyrirtækjum í landinu og samfélaginu í heild.