Umfjöllun um dráp á kú á Norðvesturlandi
Vegna frétta í fjölmiðlum um dráp á kú á Norðvesturlandi um mitt síðastliðið ár vill Matvælastofnun upplýsa eftirfarandi.
Stofnunin fékk ábendingu í lok júní 2015 um að kýr hefði drepist vegna illrar meðferðar af hálfu bónda á Norðvesturlandi. Var brugðist strax við þessari ábendingu og fóru eftirlitsmenn til skoðunar hjá viðkomandi aðila, sem viðurkenndi að kýrin hefði drepist, en lýsing hans á málsatvikum var í veigamiklum atriðum ekki í samræmi við það sem nú hefur komið fram í fjölmiðlum. Að mati starfsmanna Matvælastofnunar var engu að síður um að ræða skýlaust brot á lögum um velferð dýra og var bóndinn áminntur á staðnum, auk þess sem hann var settur undir aukið eftirlit af hálfu héraðsdýralæknis. Viðkomandi aðili hafði ekki áður komið við sögu Matvælastofnunar vegna illrar meðferðar á dýrum.
Þegar þessi atburður varð hafði Matvælastofnun ekki hafið innheimtu stjórnvaldssekta á grundvelli heimilda í lögum um dýravelferð. Nú er hins vegar búið að setja upp ákveðið fyrirkomulag við ákvörðun stjórnvaldssekta, sem hefur verið kynnt fyrir dýraverndarsamtökum og hagsmunaaðilum og þar með samtökum þeirra sem eru undir eftirliti stofnunarinnar. Markmiðið er að geta brugðist strax við brotum á lögum um dýravelferð og ákvarðast sektarupphæð meðal annars af alvarleika, varanleika, fjölda dýra sem um ræðir, brotavilja, hvort um ítrekað brot er að ræða og mögulegum hagnaði af broti. Þar sem gæta þarf jafnræðis og annarra veigamikilla atriða við beitingu stjórnvaldssekta krafðist málið vandaðs undirbúnings og má í því sambandi nefna að með ákvörðun sektar lýkur stofnunin tilteknu máli og refsar þannig hlutaðeigandi aðila. Matvælastofnun getur nú beitt þessu úrræði í málum eins og því sem hér er til umræðu og mun upphæð sektar ráðast af eðli máls.