Fara í efni

Sushi og matvælaöryggi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Árlega standa Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna fyrir sameiginlegum eftirlitsverkefnum. Verkefnin standa yfir í afmarkaðan tíma og er þá lögð áhersla á ákveðið málefni, sem gjarnan er tengt matvælaöryggi, gerð fræðsluefnis og eða breytingum á lögum eða reglugerðum.

Í september 2013 gaf Matvælastofnun út leiðbeiningar um sushi m.t.t. matvælaöryggis. Ákveðið var að skipuleggja eftirlitsverkefni til að kanna hvort leiðbeiningar hefðu skilað sér til þeirra er málið varðar og hvort öryggi framleiðslunnar væri tryggt.

Þættir eins og frysting á villtum fiski og súrsun hrísgrjóna  voru skoðaðir enda lykilatriði þegar tryggja á örugga framleiðslu á sushi. Með því að frysta villtan fisk, sem ætlunin er að bera fram hráan, má minnka líkur á sýkingum af völdum sníkjudýra s.s. hringorma og lágt sýrustig hrísgrjóna til sushigerðar er lykilinn að öryggi þeirra, þar sem þau standa gjarnan við stofuhita daglangt.

Könnunin sýndi að framleiðendur voru nokkuð meðvitaðir um hætturnar og notuðu reyndar aðallega eldislax í framleiðsluna.  Hins vegar fylgdust sumir þeirra  ekki nógu vel með sýrustigi hrísgrjónanna.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga annaðist framkvæmd eftirlitsins en Matvælastofnun sá um undirbúning verkefnisins og úrvinnslu gagna.

Ítarefni

 


Getum við bætt efni síðunnar?