Fara í efni

Rannsókn á veikindum hrossa í nágrenni Grundartanga

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun barst þann 19. maí 2011 erindi frá ábúanda á Kúludalsá í Hvalfirði með ósk um rannsókn á veikindum hrossa á bænum með tilliti til mengandi efna frá útblæstri iðjuveranna á Grundartanga.

Matvælastofnun hefur nú í samvinnu við Tilraunastöðina á Keldum lokið þeirri rannsókn: 
 
1. Skoðun á hrossunum á Kúludalsá 22. ágúst 2011
2. Rannsóknir á líffærum þriggja hrossa frá Kúludalsá sem slátrað var á Hvammstanga 24. júní 2011:
    • Stórsæ skoðun á líffærum, þ.m.t. tönnum
    • Vefjaskoðun á líffærum
    • Röntgenskoðun á hófum og leggjum
    • Mælingar á flúor í beinvef (Nýsköpunarmiðstöð Íslands)
    • Mælingar á þungmálmunum blýi, kadmín og kvikasilfri í lifur (Matís)



Niðurstöður þessara rannsókna gefa engar vísbendingar um að hrossin hafi orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma.

Veikindi hrossanna má rekja til efnaskiptaröskunar (Equine Metabolic Syndrome) og krónískrar hófsperru af þeim sökum.

Efnaskiptaröskun í hrossum einkennist af fækkun á insúlínviðtökum í frumum líkamans sem veldur því að þær geta ekki nýtt sér glúkósa í blóðinu. Hún er að mörgu leyti sambærileg við sykursýki 2 í mönnum en fylgikvillarnir eru ólíkir. Hófsperra er mest áberandi og alvarlegasti fylgikvillinn hjá hrossum.

Hross sem hafa verið feit frá unga aldri og einkum þau sem safna fitu staðbundið í makka eru líklegust til að fá þessa röskun sem aftur eykur verulega hættuna á hófsperru. Hófsperra er sársaukafullur sjúkdómur sem með tímanum kemur niður á holdafari hrossanna. Fitan í makkanum situr þó eftir sem vitnisburður um offóðrun á fyrri stigum.

Erfitt er að lækna sjúkdóminn en eftir að hann hefur þróast verða hross sérlega viðkvæm fyrir auðleystum sykrum í fóðrinu. Það getur því þurft að taka þau af beit, a.m.k. tímabundið og beit ætti að einskorðast við útjörð. Mikilvægustu forvarnirnar felast í að hindra að hross verði akfeit (holdastig 4 eða meira) og að tryggja þeim næga hreyfingu.

Nánari upplýsingar um sjúkdóminn er að finna
hér að neðan.

Ítarefni



Getum við bætt efni síðunnar?