Ný upplýsingastefna Matvælastofnunar
Matvælastofnun hefur gefið út nýja útgáfu af upplýsingastefnu sinni. Helstu breytingar eru þær að upplýst verður með frétt á vef stofnunarinnar þegar mál eru kærð til lögreglu og þegar sölustöðvun á sér stað en áður var eingöngu birt frétt um kærumál þegar niðurstöður dóma lágu fyrir og um sölustöðvun þegar hún leiddi til innköllunar á vörum af markaði. Jafnframt hefur nýjum úrræðum stofnunarinnar í dýravelferðarmálum verið bætt við lista yfir þau atriði sem upplýst er um með frétt á vef. Á það við um álagningu dagsekta og ákvarðanir um stjórnvaldssektir. Þá eru vörusvik og áminningar nú einnig sérstaklega tilgreind á listanum.
Aðrar veigamiklar breytingar eru þær að gengið er lengra í upplýsingagjöf um dýravelferðarmál. Áður upplýsti Matvælastofnun eingöngu um dýravelferðarmál „sem varða hagsmuni almennings vegna sölu, sýningar eða þjálfunar á dýrum.“ Með breytingunum miðast mörkin nú við dýrahald í atvinnuskyni, að uppfylltum skilyrðum 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
Við upplýsingastefnuna bætist einnig við kafli um nafnbirtingu. Almenna reglan er að stofnunin nafngreinir ekki aðila máls nema það hafi upplýsingagildi fyrir almenning og/eða aðra eftirlitsþega og það er ekki andstætt lögum. Í kaflanum eru einnig nánar tilgreind atriði þar sem aðili máls er nafngreindur í tengslum við aðgerðir stofnunarinnar.
Markmið upplýsingastefnunnar er að samræma upplýsingagjöf og tryggja að neytendur og eftirlitsþegar fái upplýsingar sem varðar hag þeirra. Matvælastofnun hefur einnig litið til ábendinga sem fram hafa komið í tengslum við upplýsingagjöf um aðgerðir hennar á undanförnum árum. Markmið nýjustu breytinga á stefnunni er því að bæta upplýsingagjöf innan gildandi lagaramma með neytendavernd og velferð dýra að leiðarljósi.