Hnúfubaki komið til bjargar
Fyrir nokkrum vikum uppgötvaðist hnúfubakur í Faxaflóa flæktur í net sem farið var að ganga inn í hold hans og skerða hreyfigetu. Lagt var í tvo leiðangra um helgina þar sem freista átti þess að losa hnúfubakinn. Í dag tókst að skera á netið og útlit fyrir að hnúfubakurinn nái sér að fullu.
Fjölmargir aðilar komu að björguninni og undirbúningi hennar, þ.m.t. hvalaskoðunarfyrirtæki, Landhelgisgæslan, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, British Divers' Marine Life Rescue og International Fund for Animal Welfare (IFAW). Sérþjálfað teymi í losun flæktra hvala frá tveimur síðastnefndu aðilunum sá um að leiða aðgerðirnar.
Tilraun til að festa baujur og sendi á hnúfubakinn úr nýjum báti Landhelgisgæslunnar
Matvælastofnun hvetur almenning til að upplýsa stofnunina þegar dýr uppgötvast í neyð, þ.m.t. hvalir, en 7. grein laga um dýravelferð kveður á um hjálparskyldu allra þeirra sem verða varir við dýr sem eru sjúk, særð, í sjálfheldu eða bjargarlaus á annan hátt. Þegar um villt dýr er að ræða skal tilkynna það til lögreglu.