Fara í efni

Endurmat á skilyrðum fyrir innflutningi hunda og katta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Drög að nýrri reglugerð um innflutning hunda og katta hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í þeim er m.a. gert ráð fyrir styttingu einangrunartíma og möguleika á heimasóttkví fyrir hjálparhunda. Drögin byggja á áhættugreiningu dansks sérfræðings og tillögum Matvælastofnunar að breyttum innflutningsskilyrðum, sem miða við að lágmarks áhætta fylgi innflutningnum.

Umsagnarfrestur um reglugerðardrögin er til 3. janúar nk. Helstu breytingar á innflutningskröfum sem lagðar eru til eru stytting á einangrun úr 4 vikum í 14 sólarhringa auk þess sem einangrun hjálparhunda getur farið fram í heimasóttkví. En jafnframt er um að ræða aukinn undirbúning fyrir innflutning hvað varðar bólusetningar, sýnatökur og meðhöndlun. Eingöngu verður heimilt að flytja inn hunda og ketti frá viðurkenndum útflutningslöndum en slík viðurkenning byggist á mati Matvælastofnunar á dýrasjúkdómastöðu og dýraheilbrigðisþjónustu viðkomandi lands m.a. skv. skilgreiningum Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar.

Núgildandi skilyrði um innflutning og einangrun voru sett árið 2003. Nýtt áhættumat vegna innflutnings hunda og katta var nýlega unnið af dönskum sérfræðingi, Preben Willeberg, fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og var sú skýrsla birt í mars 2019. Skýrsla hans tekur ekki afstöðu til einangrunar eða annarra innflutningsskilyrða. Þar kemur fram að ákvörðun um skilyrði til innflutnings skuli vera í höndum íslenskra stjórnvalda og vera í samræmi við sjúkdómastöðu landsins. 

Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu Matvælastofnunar til áhættumats Willeberg og þess hvort mögulegt væri að stytta einangrunartíma fyrir hunda og ketti með áherslu á hjálparhunda. Greinargerð um endurmat á skilyrðum fyrir innflutningi hunda og katta frá 11. desember sl. er svar Matvælastofnunar við beiðni ráðuneytisins.

Í greinargerð stofnunarinnar er fjallað um þá sjúkdóma sem Willeberg telur miklar eða miðlungs miklar líkur á að berist með innfluttum hundum og köttum auk nokkurra annarra sjúkdóma sem ekki voru teknir fyrir í skýrslu hans. Um er að ræða u.þ.b 40 sjúkdóma/smitefni og eru núgildandi innflutningsskilyrði borin saman við skilyrði til innflutnings til Ástralíu, Nýja-Sjálands og Evrópusambandsins. Að lokum eru gerðar tillögur að mótvægisaðgerðum, sem fela ýmist í sér bólusetningar, rannsóknir, meðhöndlun, klíníska skoðun eða einangrun, eftir því hvað við á.

Matvælastofnun telur mögulegt að stytta einangrun án þess að dregið sé úr smitvörnum að því gefnu að öðrum aðferðum sé beitt til að halda uppi sömu eða jafnvel meiri vörnum gegn smitsjúkdómum en nú er gert. Við mat á mótvægisaðgerðum, þ.e. bæði heilbrigðisskilyrðum og einangrun var m.a. tekið tillit til reynslu okkar af innflutningi hunda og katta síðan 2003 en um 3500 dýr hafa verið flutt til Íslands samkvæmt núgildandi innflutningsskilyrðum. Einnig var horft til nýlegra ástralskra og nýsjálenskra áhættugreininga en ekki síst reynslu nágrannaþjóða okkar af því þegar samevrópskar reglur voru teknar upp (uppúr aldamótum) og einangrun felld niður m.a. í Noregi og í Bretlandi. 

Tilgangur einangrunar er margþættur. Sumum þeirra sjúkdóma sem hætta er á að berist til Íslands með innflutningi dýra er ekki hægt að verjast með viðunandi hætti með bólusetningum, rannsóknum o.þ.h. og í einangrun gefst tóm til að fylgjast vel með heilsufari dýranna. 

Í einangrun er til dæmis skimað fyrir sníkjudýrum og hafa þau greinst í nánast öllum innflutningshópum. Reglulega greinast sníkjudýrategundir sem ekki finnast á Íslandi og mikilvægt er að koma í veg fyrir að berist í dýr og menn á Íslandi. Ljóst er að gera þarf ráð fyrir tíma fyrir sýnatöku, greiningu og meðhöndlun. 

Komi upp óþekktir smitsjúkdómar þarf að vera mögulegt að grípa til viðeigandi ráðstafana. Nú síðast í desember komu upp einkenni hjá hundum í einangrun sem gætu bent til hundainflúensu og nauðsynlegt reyndist að senda sýni utan í greiningu. Sem betur fer var hægt að útiloka hundainflúensu sem aldrei hefur greinst á Íslandi. Einnig má nefna hundaveikina sem kom upp í Noregi í september og vegna gildandi innflutniningslöggjafar var mögulegt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn bærist til Íslands. 

Matvælastofnun lítur svo á að einangrun sé nauðsynleg til þess að fyrirbyggja eins og kostur er að ný smitefni berist til landsins með hundum og köttum. Hvað varðar hjálparhunda (blindrahunda og aðra sérþjálfaða hjálparhunda) er heimaeinangrun undir ströngu eftirliti dýralæknis og Matvælastofnunar talin fullnægjandi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?